Innlent

„Þessi próf eru gagnslaus“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Stór hluti þeirra sem telja sig vera með fæðuóþol eða ofnæmi þjást ekki af slíku. Hávær umræða um matarræði hefur orðið til þess að ýmiskonar próf, sem ætlað er að sía út fæðutegundir sem ber að varast, hafa skotið upp kollinum.

Eitt þessara prófa kallast Food Detective og kostar 18.900 krónur. Food Detective mælir svokölluð IgG mótefni, sem samkvæmt leiðavísinum veldur mótefnaframleiðslu sem leitt getur til fæðuóþols. Prófið mælir aftur á móti ekki hefðbundið fæðuofnæmi af völdum svokallaðra IgE mótefna.

Yrsa Löve, ofnæmislæknir, segir að ekkert bendi til þess að Food Detective eða sambærileg próf sem mæla IgG mótefni geti mælt fæðutegundir sem fólk þarf að forðast á nokkurn hátt.

„Afþví að þessi próf mæla IgG mótefni, sem ekki hefur verið sýnt fram á að hafi tengsl við fæðuóþol eða ofnæmi, eru þau gagnslaus. IgG mótefni hafa einfaldlega ekkert með ofnæmi eða óþol að gera,“ segir Yrsa.

Hún segir fólk sífellt fleiri vera vissa um að vera með fæðuóþol. Sú sé þó alls ekki alltaf raunin.

„Fólk veltir þessum málum heilmikið fyrir sér í kjölfar þessarar fæðuvakningar sem er í gangi þessa mánuðina. En við sjáum líka að það eru samt fleiri sem halda að þeir séu með óþol eða ofnæmi heldur en raunverulega eru það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×