Innlent

Íslenskir bræður upplifðu skotárásina í Colorado

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ólafur (í miðjunni) er nemandi við Arapahoe-skólann í Denver.
Ólafur (í miðjunni) er nemandi við Arapahoe-skólann í Denver.
Íslenskir tvíburabræður, þeir Einar Thor og Ólafur Thor Magnússynir, voru staddir í myndlistartíma í Arapahoe-framhaldsskólanum í úthverfi Denver þegar nemandi við skólann hóf skothríð á samnemendur sína og svipti sig lífi í kjölfarið. Einn nemandi, fimmtán ára stúlka, liggur alvarlega særður á sjúkrahúsi eftir árásina.

„Allt í einu byrjaði skólastjórinn að kalla í hátalarakerfið og sagði okkur öllum að fara í „lockdown“,“ segir Ólafur í samtali við Vísi.

„Síðan sagði hann ekkert meir. Við erum nýlega búin að vera í svona æfingum, og héldum að þetta væri enn önnur æfingin, þannig að enginn tók þessu neitt sérstaklega alvarlega.“

Ólafur segir að tuttugu mínútum síðar hafi nemendurnir heyrt í sjúkrabílum, lögreglubílum og þyrlum.

„Þá fórum við að hugsa: „Voða er þetta flott „drill“,“ en þá kom skólastjórinn aftur í kerfið og sagði að það væri hættulegur maður í byggingunni og að við ættum að fara í skjól. Kennarinn okkar tekur okkur öll og við förum í horn á skólastofunni þar sem við sjáum ekki dyrnar, og kennarinn læsir og dregur fyrir gluggana.“

„Við héldum að þetta væri strákurinn“

Ólafur segir um tvær klukkustundir hafa liðið þar til nemendurnir heyrðu í lögreglunni fyrir utan. „Við heyrðum lögguna kalla „upp með hendur“ og við vissum ekkert hvað var í gangi. Þá byrjuðu allir að vera hræddir og hringja í mömmur sínar og svona. Eftir dágóða stund kom einhver og rykkti í hurðina okkar. Eftir það fór hann og við héldum að þetta væri strákurinn. Það var ekki til að bæta ástandið.“

Skömmu síðar var rykkt aftur í hurð skólastofunnar og þá kom í ljós að það voru lögreglumenn.

„Hann kom inn og miðaði byssu á okkur, og mjög undarlega klæddur. Það hélt enginn að þetta væri löggan. Svo kom önnur fyrir aftan hann með vélbyssu og öskraði á okkur að setja hendur upp í loft. Svo var leitað á okkur öllum, við færð inn í stórt herbergi þar sem aðrir nemendur voru, og eftir það var okkur öllum vísað út með hendur upp í loft og látin fara inn í einhverja búð.“

Foreldrar tvíburanna fengu fréttir af skotárásinni áður en bræðurnir náðu að hafa samband. Þau mættu á staðinn og biðu fyrir utan afgirt svæði lögreglu.

„Þetta var ekki skemmtilegasta atvik sem maður hefur lent í. Bróðir minn til dæmis, hann hélt að þetta yrði sitt síðasta,“ segir Ólafur og bætir því við að foreldrar bræðranna séu enn ekki búnir að jafna sig.

Lagður í einelti

Aðpurður hvort hann hafi þekkt árásarmanninn segir Ólafur hafa vitað hver hann var.

„Ég þekkti hann ekki, en ég hef séð hann og ég veit hver hann er. Það er verið að segja á Facebook að hann hafi verið lagður í einelti síðan hann byrjaði í skólanum og að hann hafi bara sprungið þennan dag. Fólk sem þekkti hann segir að hann hafi verið yndislegur náungi og að það hefði aldrei trúað því að hann myndi gera svona. En svona gerist þegar fólk er lagt í einelti í langan tíma.“

CNN hefur greint frá því að árásarmaðurinn hafi verið í hefndarhug gegn einum af kennurum skólans, og samkvæmt lögreglustjóra á svæðinu hafði þeim sinnast. Þá er skólinn sagður verða lokaður fram yfir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×