Innlent

Gagnrýnir lítinn sem engan undirbúning

Magnús Skúlason
Magnús Skúlason
Um áramótin verða heilbrigðisstofnanir í þremur heilbrigðisumdæmum sameinaðar.

Á Norðurlandi renna saman heilbrigðisstofnanir á Blönduósi, Sauðárkrói, Húsavík og í Fjallabyggð.

Á Vestfjörðum heilbrigðisstofnanirnar á Patreksfirði og í Ísafjarðarbæ og Suðurlandi heilbrigðisstofnanirnar á Selfossi, Höfn og í Vestmannaeyjum.

Magnús Skúlason, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands gagnrýnir lítinn undirbúning við sameiningu sinnar stofnunar við Vestmannaeyjar og Hornafjörð.

„Sameiningin er bara í undirbúningi á vegum ráðuneytis, við vitum ekki mikið nánar um það. Það er verið að sameina fjárveitingar í fjárlögum núna og þetta á allt eftir að skýrast,“ segir Magnús.

„Við erum ekki nákvæmlega upplýst um málið. Hugmyndirnar hafa komið fram áður og eru ekki nýjar en framkvæmdirnar taka sinn tíma,“ segir Magnús.

„Það er ekki ljóst hvernig yfirstjórnin verður. Allavega vitum við það ekki,“ segir Magnús.

Samkvæmt breytingartillögum mun stofnunin áfram heita Heilbrigðisstofnun Suðurlands. „Það liggur ekkert fyrir um að það þurfi að segja upp fólki eða eru allavega engin áform um það,“ útskýrir Magnús.

Lítið heyrist í almenningi hvort þeim hugnist sameiningin. „Það hefur ekki verið mikil umræða á þessu svæði, en mér skilst að Vestmannaeyingar séu ekki sáttir án þess að ég viti það nákvæmlega,“ segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×