Sport

Manning íþróttamaður ársins hjá Sports Illustrated

Íþróttablaðið Sports Illustrated tilkynnti í dag val á sínum íþróttamanni ársins. Það er leikstjórnandi Denver Broncos, Peyton Manning, sem hlaut heiðurinn að þessu sinni.

Hinn 37 ára gamli Manning missti af öllu tímabilinu 2011 og var afskrifaður af mörgum. Hann þurfti þá að fara í fjórar aðgerðir vegna hálsmeiðsla.

Félag hans, Indianapolis Colts, ákvað í kjölfarið að rifta samningi við leikmanninn og veðja frekar á Andrew Luck sem þeir völdu fyrstan í nýliðavalinu.

Denver Broncos var til í að veðja á Manning og losaði sig í leiðinni við ungan og efnilegan leikstjórnanda, Tim Tebow.

Það er skemmst frá því að segja að Broncos veðjaði á réttan hest. Manning var frábær í fyrra og enn betri í ár. Hann mun að öllum líkindum bæta met Tom Brady yfir flestar snertimarkssendingar á einu tímabili.

Reyndar er Manning að bæta fjölda meta í vetur en það sem er áhugavert er að hann hefur líklega aldrei spilað betur en í vetur. Margir sérfræðingar vestra segja að aldrei hafi leikstjórnandi spilað jafnvel og Manning er að gera í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×