Innlent

„Eitthvað annað“ í kvöld: Rakel í útrás

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Það er ekkert grín að rífa sig upp með rótum og börnum og æða út í óvissuna – en  það gerði frumkvöðullinn og hugsjónakonan Rakel Sölvadóttir, forritari og annar stofnenda Skema, í haust, þegar hún flutti ásamt börnum sínum tveimur til Bandaríkjanna. Þar ætlar hún hefja uppbyggingu setra þar sem börn geta lært forritun, allt frá 6 ára aldri. Ætlunin er að setja fyrsta setrið upp í Redmond í Washington fylki í febrúar og síðan er planið að reisa setur í San Fransisco, Los Angeles og líklega Las Vegas.

En hvernig verður maður svona frumkvöðull sem þorir að stíga út úr þægindaramma launþegans? Við kynnumst persónunni Rakel í nýrri þáttaröð Lóu Pind Aldísardóttur „Eitthvað annað“ sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld kl. 19:25. Rakel sem var forritari  hjá fyrirtæki hér í bæ, fékk uppsagnarbréf eftir hrun – og daginn eftir vann fyrirtæki hennar frumkvöðlakeppnina  Fræ ársins. Síðan hefur Skema vaxið hratt,  og er nú komið í útrás, Rakel hefur stofnað erlent móðurfélag, ReKode education. Eftir tveggja ára stöðugan vöxt á Íslandi, þar sem Skema er búið að kenna um 2000 börnum fyrstu skrefin í forritun, fann hún sig knúna til að flytja höfuðstöðvarnar frá Íslandi til að fylgja þeirri hugsjón sinni að mennta börn til að skilja og búa til nýja tækni, fremur en að verða bara neytendur á tækni. Hún segir ekki í boði að vaxa á Íslandi þegar menn hugsi stórt, erfitt sé að fá erlenda fjárfesta til Íslands, m.a. vegna gjaldeyrishafta.

Skema er því eitt af æði mörgum íslenskum fyrirtækjum sem telja sig ekki geta vaxið á Íslandi vegna gjaldeyrishafta og krónunnar en Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins hefur lýst yfir áhyggjum vegna þessarar þróunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×