Innlent

Vinnumálastofnun stendur frammi fyrir 27% niðurskurði

Stefán Árni Pálsson skrifar
Árni Stefán Jónsson formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson formaður SFR. mynd / samsett
Vinnumálastofnun þarf að segja upp 40 starfsmönnum og draga úr rekstrarútgjöldum um 342 milljónir árið 2013 ef marka má fjárlagafrumvarp ríkistjórnarinnar sem er til umræðu á Alþingi. 

Fram kemur í frétt á vefsíðu SFR að þetta jafngildi um um 27% niðurskurð sem mun hafa gríðarleg áhrifa á stofnunina.

„Við stöndum frammi fyrir því að yfir 40 sérhæfð störf á landsbyggðinni hverfa. Á landsvæðum með viðkvæmt atvinnulíf mundu störfin einfaldlega hverfa með ófyrirséðum afleiðingum fyrir starfsmenn, börn þeirra og fjölskyldur. Þetta eru glæsilegar áherslur eða hitt þá heldur, hjá ríkisstjórn sem hefur talað fyrir uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni,“ segir Árni Stefán Jónsson formaður SFR.

„Í þessum aðgerðum og fleirum erum við að sjá áherslur stjórnvalda gagnvart þeim sem minna mega sín. Þarna sjáum við bakvið sparigrímu stjórnvalda inní steinhart andlit. Þetta er sama tilfinningalausa andlitið og við sáum þegar ákveðið var að atvinnulausir myndu ekki fá desemberuppbót nú í ár. Hér er allt á sömu bókina lært – þeir sem minna mega sín eru niðurlægðir og á þeim níðst. Stefna þessarar ríkisstjórnar miðast öll við það að gera þá ríku ríkari og rýra kost þeirra efnaminni. Þetta eru forkastanlegar áherslur og ég man ekki til þess að hafa séð svo harkalegar aðgerðir stjórnvalda lengi,“ segir Árni.

„Þetta er sannarlega ekki sú stefna sem fólk taldi sig vera að kjósa í vor miðað við kosningaloforðin, heldur er hér valtað yfir almenning og það velferðarkerfi sem við þekkjum og kjósum að hafa hér á landi.“

Fram kemur í fréttinni að með þessum niðurskurði sé ekki verið að hagræða heldur sé hér um að ræða miskunnarlaust niðurrif á þeirri góðu þjónustu sem stofnunin hefur veitt atvinnuleitendum á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×