Innlent

"Geðlæknar hafa varpað ábyrgðinni frá sér“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
„Það er ekki hægt að setja aðstandendur í þessa hryllilegu stöðu“, segir maður sem sviptur var sjálfræði af móður sinni. Hann segir geðlækna hér á landi hafa varpað ábyrgðinni frá sér í málefnum geðfatlaðra, en það þekkist ekki erlendis að fjölskyldur beri ábyrgð á nauðungarvistunum.

Í Fréttablaðinu í dag var fjallað ítarlega um nauðungarvistanir geðsjúkra. Verklag við nauðungarvistanir á Landspítalanum þvingar aðstandendur geðsjúks fólks til að skrifa undir beiðni um sjálfræðissviptingu, en slíkt skilur margar fjölskyldur eftir í sárum.

Sigursteinn Másson hefur fjórum sinnum sviptur sjálfræði af móður sinni.

„Þetta var alveg ofboðslega sárt þó ég geri mér grein fyrir því að þetta var það eina í stöðunni á þessum tíma. Það verður ótrúlegur trúnaðarbrestur á milli fjölskyldumeðlima og það getur haft alvarleg áhrif á bataferlið. Þú vilt ekki hafa einhvern nálægt þér sem frelsissviptir þig,“ segir hann.

Sigursteinn segir þetta fyrirkomulag ekki þekkjast erlendis. Hann telur það ósanngjarnt, bæði gagnvart geðsjúkum og aðstandendum þeirra.

„Þetta er heilbrigðismál og auðvitað þarf að taka á því sem slíku. Geðlæknar hafa alveg varpað ábyrgðinni yfir á aðstandendur og þannig á það ekki að vera. Það verður að breyta þessu fyrirkomulagi.“

Athygli vekur að unnið hefur verið með öðrum hætti að þessum málaflokki á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu. Þar koma aðstandendur aldrei að nauðungarvistunum nema þeir óski sérstaklega eftir því.

Nánar verður fjallað um málefni geðsjúkra í fréttaskýringaröð sem birtist í Fréttablaðinu í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×