Innlent

Blóðugur niðurskurður framundan hjá Vinnumálastofnun

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Blóðugur niðurskurður er framundan hjá Vinnumálastofnun á næsta ári. Svo gæti farið að starfsemi stofnunarinnar á Skagaströnd verði lögð niður sem yrði reiðarslag fyrir sveitarfélagið að sögn sveitarstjóra. Þeir sem minna mega sín eru niðurlægðir og á þeim níðst segir formaður stéttarfélags í almannaþjónustu.

Rúmlega 20 manns starfa hjá Vinnumálastofnun á Skagaströnd. Verði af niðurskurði munu um 5% íbúa Skagastrandar missa vinnuna. Það samsvarar ef 6.000 manns í Reykjavík myndu missa vinnuna.

40 missa vinnuna

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að rekstrarútgjöld Vinnumálastofnunnar lækki um rúmlega 340 milljónir á næsta ári. Það þýðir niðurskurð upp á tæp 30%. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunnar, staðfesti við fréttastofu í dag að allt bendi til þess að af stórfelldum niðurskurði verði. 40 manns munu að öllum líkindum missa vinnuna, þar af flestir á landsbyggðinni.

Verði af niðurskurði þarf að öllum líkindum að loka greiðslustofu Vinnumálastofnunnar á Skagaströnd. Magnús S. Jónsson, sveitarstjóri á Skagastönd, sagði í samtali við fréttastofu að það yrði gífurlegt högg fyrir sveitarfélagið fari svo að starfsemi Vinnumálastofnunnar í sveitarfélaginu yrði lögð niður. Allt sé nú gert til telja stjórnvöldum hughvarf.

Sjáist bakvið sparigrímu stjórnvalda inn í steingert andlit

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, vandar ríkisstjórninni ekki kveðjurnar vegna málsins og segir að þarna sjáist bakvið sparigrímu stjórnvalda inn í steingert andlit.

„Þetta er skref verulega aftur á bak og alveg ótrúlegt að menn ætli út í þennan niðurskurð. Nú er atvinnuleysi milli 4-5% en verið að skera þessa stofnun niður líkt og þegar atvinnuleysi var 1-2% árið 2003,“ segir Árni Stefán sem undrast undrast forgangsröðun stjórnvalda. Níðst sé á þeim sem minnst mega sín.

„Þetta er mjög öfgafullt skref og nýlega hafa komið fréttir um að hætta eigi við að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót sem að mínu mati er algjörlega skammarlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×