Innlent

Læsi minnst á Suðurnesjum

Jakob Bjarnar skrifar
Árni Sigfússon segir Suðurnesjamenn vana því að takast á við áföll.
Árni Sigfússon segir Suðurnesjamenn vana því að takast á við áföll.
Slæm niðurstaða ungmenna á Suðurnesjum í síðustu PISA-könnun kemur Árna Sigfússyni bæjarstjóra á óvart því þar hafa krakkar verið mjög að sækja í sig veðrið í samræmdum prófum.

Suðurnesjamenn vanir áföllum

PISA-könnunin og niðurstöður hennar fyrir árið 2012 var kynnt var í gær, og talar Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra um áfall. Íslensk ungmenni eru að koma illa út, og krakkarnir á Suðurnesjunum sýnu verst sé miðað við aðra landshluta, þá er varðar lesskilning. Í könnuninni skiptast nemendur í mismunandi hæfnisþrep og skera Suðurnes sig úr að því leyti að þar eru hlutfallslega flestir lesendur á eða undir þrepi 1 í lesskilningi. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, vill ekki mála skrattann á vegginn.

„Við erum reyndar svo vön því að glíma við verkefni, hvort sem það er þegar herinn fer, og geta menn þá talað um áfall eða varðandi þessa stöðu. Við erum stöðugt að glíma við þetta verkefni. Lífið er bara þannig að einn daginn eru gleðifréttir og annan ekki. Við þurfum bara að vinna okkur í gegnum það. Aðalatriðið er að horfa raunsætt á þetta, gleðjast yfir því sem vel er gert og taka á því sem taka þarf á. Þetta er vissulega það verkefni og ég í sjálfu sér kvíði því ekki, við erum með frábæran hóp hér skólamanna, foreldra sem hafa mikinn áhuga á að taka á þessu máli og við munum sannarlega geta sýnt það á næstu árum að í PISA, eins og öðru, getum við sannarlega náð árangri.“

Árni brattur fyrir hönd síns fólks

Árni lætur engan bilbug á sér að finna; þetta sé áminning um að taka betur á þessum málum. Niðurstaðan kemur Árna reyndar á óvart í ljósi ágæts árangurs krakka á Suðurnesjum að undanförnu í samræmdu prófunum. Þar hafa Suðurnesjamenn verið í sókn allt frá 2005; í stærðfræði og ensku og komin yfir landsmeðaltal.

„Frábær árangur og við erum stolt af því. Reyndar hefur verið sókn í íslensku en ekki með sama hætti, erum enn undir landsmeðaltali og það skýrir kannski þessa umræðu um lesskilning. En, svo koma þessar upplýsingar um PISA, þær eru reyndar gamlar. Við gerðum miklar breytingar og vorum með nýjar áherslur í lestrarmálunum, 2010 og 2011 þannig að við erum að gera ráð fyrir því að þau muni skila sér í PISA 2015. Það er ekkert annað en horfa á þetta sem verkefni og segja að við ætlum líka að vera góð í PISA. Erum þegar orðin það í samræmdum prófum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×