Innlent

Í áfalli eftir vopnað rán við Hvassaleitisskóla

Gissur Sigurðsson og Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tveir menn réðust að drengjunum þar sem þeir gengu til móts við Hvassaleitisskóla og rændu þá.
Tveir menn réðust að drengjunum þar sem þeir gengu til móts við Hvassaleitisskóla og rændu þá. mynd/daníel
Faðir annars 15 ára drengjanna sem rændir voru í austurborginni í gær segir þá mjög skelkaða eftir atvikið. Tveir menn réðust að þeim þar sem þeir gengu til móts við Hvassaleitisskóla og rændu þá farsímum og fleiri verðmætum.

„Þeir eru þarna labbandi og á móti þeim koma tveir menn upp að þeim og heimta símana af þeim,“ segir faðirinn. „Þeir þráast aðeins við og þá er félagi sonar míns kýldur í andlitið en minn er tekinn nánast hálstaki og hníf beint að honum.“

Faðirinn segir drengina hafa látið mennina hafa símana og önnur verðmæti sem þeir höfðu í vösum sínum. „Þeir eru bara nógu skynsamir til að láta þá hafa draslið fyrst þeir eru ekki með neitt annað.“

Að sögn föðursins voru mennirnir með andlit sín hulin til hálfs og þekkja drengirnir þá líklega ekki aftur. „Nei ekki nema bara klæðnaðinn, enda ákveðið áfall að verða fyrir svona. Þeir eru í sjokki og ég líka. Ég hef líka alltaf haldið að það væri hægt að vera úti á kvöldin, svona í íbúðahverfunum. Það er mesta sjokkið í þessu,“ segir faðirinn.

Hann reiknar ekki með að drengirnir treysti sér að vera úti á kvöldin á næstunni. „Lögreglan er bara komin með þetta mál og það sem kemur út úr því verður bara að koma í ljós, en þeir eru aðallega særðir á sál, það er það versta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×