Innlent

Neyðarsöfnun UNICEF

Jakob Bjarnar skrifar
Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn á Filippseyjum með því að senda sms-sið barn í númerið 1900 (við segjum það nítján, núll, núll) og gefa þannig 1.900 krónur,“ segir Sigríður Víðis.
Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn á Filippseyjum með því að senda sms-sið barn í númerið 1900 (við segjum það nítján, núll, núll) og gefa þannig 1.900 krónur,“ segir Sigríður Víðis.
Ástandið á Fillipseyjum er skelfilegt eftir að fellibylurinn Hayian gekk yfir eyjarnar og erfiðlega gengur fyrir björgunarsveitir að komast á staðina sem verst urðu úti.

Í dag fer UNICEF af stað með neyðarsöfnun fyrir Filippseyjar en ástandið þar er skelfilegt.

Sigríður Víðis Jónsdóttir er fjölmiðlafulltrúi UNICEF og hún segir að nú bíði menn ekki boðanna. Um sé að ræða stærsta fellibyl sem yfir eyjarnar hefur gengið, reyndar einn sá stærsti sem þekkist og neyðin mikil.

„Yfir fjórar milljónir barna eru í neyð og þurfa hjálp – núna. Þá hjálp erum við að veita og ætlum að veita.“

Sigríður segir að biðlað verði til almennings hér á landi um að styrkja söfnunina.

„Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn á Filippseyjum með því að senda sms-sið barn í númerið 1900 og gefa þannig 1.900 krónur,“ segir Sigríður Víðis. Hún bendir einnig á að jafnframt megi leggja söfuninni lið á heimasíðu UNICEF með frjálsum framlögum. „Og þess utan þá fara framlög heimsforeldra á Íslandi beint í þessar neyðaraðgerðir núna. Það eru yfir 22 þúsund heimsforeldrar hér á landi og það eru þeir sem gera okkur kleyft að bregðast hratt og örugglega við.“

UNICEF var á staðnum áður en hamfarirnar áttu sér stað, eru þar nú og ætla að vera þar áfram en Haiyan er fjórði mesti fellibylur sem nokkurn tíma hefur mælst og 24. fellibylurinn sem gengur yfir Filippseyjar á árinu. Vindstyrkur í hviðum fór upp í 105 metra á sekúndu þegar verst lét. Talið er að allt að tíu þúsund manns hafi farist í borginni Tacloban einni saman og hundruð eða jafnvel þúsundir annarsstaðar. Hundruð þúsunda manna eru nú án húsaskjóls en fellibylurinn ruddi úr vegi íbúðarhúsum, skólum og heilum flugvelli. Á Fillipseyjum takast menn nú á við eftirmála hildarleiksins en veðrið er talið hafa haft áhrif á líf fjögurra milljóna manna með einhverjum hætti. Margir eru án matar og hreins drykkjarvatns.

„Við fórum strax í það að senda þau hjálpargögn sem voru til staðar í landinu á vettvang. Þess utan erum við núna búin að gera klár 60 tonn af hjálpargögn sem eru á leiðinni á svæðið. Viðbrögðin nú snúast fyrst og fremst um það að veita lífsnauðsynlega aðstoð. Þá erum við að tala um nauðsynleg lyf, næringu, drykkjarvatn og hreinlætisgögn fyrir bæði börn og fjölskyldur,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir hjá UNICEF.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×