Innlent

"Þetta er slæmt fyrir alla sjálfstæðismenn“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir deyfð hafa ríkt yfir borgarstjórnarmálum undanfarið. Nú sé tími fyrir flokkinn að nútímavæðast. Formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna segir slæmt gengi kvenna í prófkjörinu í gær mikið vandamál allra sjálfstæðismanna.

Óhætt er að segja að kjörsókn hafi verið dræm í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í gær. Um tuttugu og eitt þúsund voru á kjörskrá en kjörsókn var 5.075 atkvæði. Í síðasta prófkjöri flokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningar árið 2010 kusu um sex þúsund og fimm hundruð manns.

Karlar skipa þrjú efstu sæti. Halldór Halldórsson fór með með sigur úr býtum. Hann er nýr oddviti sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg. Júlíus Vífill, fráfarandi oddviti , skipar annað sæti listans og Kjartan Magnússon, einn af sigurvegurum prófkjörsins, skipar þriðja sæti.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fjallar um prófkjörið í pistli sem hann birti á Evrópuvaktinni í dag. Þar segir Styrmir það nokkuð augljóst, miðað við kjörsókn, að lítill áhugi hafi verið fyrir prófkjörinu.

Þá ítrekar Styrmir að það væri barnaskapur og sjálfsblekking af hálfu borgarfulltrúa og frambjóðenda að halda því fram að ekki sé um að ræða einhverja meinsemd í starfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

„Ég held að það hafi verið ákveðin deyfð yfir stjórnmálunum og það á ekki bara við um Sjálfstæðisflokkinn. En við erum fjöldahreyfing þrátt fyrir allt og fimm þúsund manns rúmlega sem taka þátt í prófkjör er mjög stórt,“ segir Halldór Halldórsson.

„Við þurfum að nútímavæðast, til þess einmitt að ná betur til unga fólksins.“

Það er þó ekki aðeins dræm kjörsókn sem vekur athygli í prófkjörinu. Dapurt gengi þeirra kvenna sem gáfu kost á sér er staðreynd, enda raða karlar sér í þrjú efstu sætin. Þorbjörg Helga skipar fjórða sæti með eitt þúsund níu hundruð og áttatíu atkvæði í fyrsta til fjórða sæti. Þar á eftir koma Áslauga María Friðriksdóttir og Hildur Sverrisdóttir í fimmta og sjötta sæti.

„Þetta er ekki bara áhyggjuefni fyrir konur. Við skulum halda því til haga. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir alla sjálfstæðismenn,“ segir Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna.

Sp. blm. Ætti að taka tillit til kynjahlutfalla þegar raðað er á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg?

„Mér fyndist ekki óeðlilegt við það. Hérna voru konur sannarlega að sækjast eftir áhrifum og ég tel mjög eðlilegt að þetta verði skoðað í framhaldinu,“ segir Jarþrúður.

Hvernig endanlegur listi Sjálfstæðisflokks kemur til með líta út er með öllu óvíst. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að tveir frambjóðendur hið minnsta íhugi að taka ekki sæti á listanum. Má leiða líkur að því að það séu Júlíus Vífill, sem tapaði oddvistasæti sínu, og Þorbjörg Helga, sem hafnaði fjórða sæti en þó efst kvenna.


Tengdar fréttir

Halldór sigraði í prófkjöri sjálfstæðismanna

Halldór Halldórsson sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Hann hafði betur gegn Júlíusi Vífli Ingvarssyni um efsta sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×