Innlent

Halldór sigraði í prófkjöri sjálfstæðismanna

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Halldór Halldórsson er sigurvegari prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Halldór Halldórsson er sigurvegari prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík. Mynd/Daníel
Halldór Halldórsson sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Hann hafði betur gegn Júlíusi Vífli Ingvarssyni um efsta sætið. Lokatölur voru birtar á ellefta tímanum í kvöld.

Halldór hlaut 1802 atkvæði í efsta sæti en Júlíus Vífill 1.663. Halldór er formaður íslenskra sveitarfélaga og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði. Halldór er augljós sigurvegari prófkjörsins. Júlíus Vífill mun skipa annað sæti lista sjálfstæðismanna en hann hlaut 2.031 atkvæði í 1.-2. sæti. Kjartan Magnússon fékk 2.531 atkvæði í 1.-3. sæti. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er hlaut 1.981 atkvæði í 1.-4. sæti.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk fimm borgarfulltrúa í síðustu kosningum. Áslaug María Friðriksdóttir hlaut 2.404 atkvæði í 1.-5. sæti og var aðeins 14 atkvæðum á eftir Þorbjörgu Helgu í baráttunni um fjórða sætið. Hildur Sverrisdóttir náði að vinna sig upp í sjötta sæti eftir að hafa lengst af verið í sjöunda sæti listans. Hún hlaut 2.212 atkvæði í 1.-6. sæti sem hljóta að teljast vonbrigði fyrir Hildi sem stefndi á efsta sæti listans. Marta Guðjónsdóttir féll niður fyrir Hildi í sjöunda sæti með 2.104 atkvæði í 1.-7. sæti.

Kjörsókn var 5.075 atkvæði og voru gild atkvæði 4.973. Þátttaka var minni en í síðasta prófkjöri flokksins. 

Lokastaðan í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

1. Halldór Halldórsson - 1802 atkvæði

1.-2. Júlíus Vífill Ingvarsson - 2031

1.-3. Kjartan Magnússon - 2531

1.-4. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir - 1981

1.-5. Áslaug María Friðriksdóttir - 2404

1.-6. Hildur Sverrisdóttir - 2212

1.-7. Marta Guðjónsdóttir - 2104

1.-8. Börkur Gunnarsson - 1511 

1.-9. Björn Gíslason - 1422

1.-10. Lára Óskarsdóttir - 1325




Fleiri fréttir

Sjá meira


×