Innlent

15 milljónir hafa safnast til hjálparstarfs á Filippseyjum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hundruðir þúsunda söfnuðust í dag til styrktar hjálparstarfi UNICEF á Filippseyjum. Fullt var út úr dyrum á asíska veitingastaðnum Bambus þar sem fjölmargir Filippseyingar búsettir á Íslandi komu saman.

Rúm vika er liðin frá því að fellibylurinn Hayian gekk yfir Filippseyjar. Tæplega fjögur þúsund manns létu lífið í þessum mannskæða fellibyl og er eyðileggingin víða algjör. Um 2000 Filippseyingar eru búsettir á Íslandi og er samfélag þeirra náið. Margir þeirra sem búsettir eru hér á landi koma frá þeim hluta Filippseyja þar sem eyðileggingin var einna mest. Flestir hafa því misst eða óttast um afdrif ættingja. 

Mörg hundruð þúsund krónur söfnuðust á Bambus í Borgartúni í dag og rann heildarfjárhæðin óskipt til hjálparstarfs á Filippseyjum. Lilja Védís Hólmsdóttir var ein þeirra sem skipulagði viðburðinn á Bambus í dag.

„Við erum himinlifandi með stuðning íslensku þjóðarinnar. Filippseyjar eru um 7.100 eyjar og það hefur verið gríðarlega erfitt að ná í ættingja sína í þessu sambandsleysi - afar erfitt,“ segir Lilja Védís.

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir söfnun til hjálparstarfs á Íslandi ganga vel. „Við erum búin að safna rúmum 15 milljónum sem aðallega koma frá almenningi. Við skynjum velviljan og samhuginn hjá almenningi á Íslandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×