Innlent

„Það er náttúrulega bara fáránlegt að skipið sé sett hingað“

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Starfsmenn í nágrenni Hafnarfjarðarhafnar hafa áhyggjur af stöðu mála.
Starfsmenn í nágrenni Hafnarfjarðarhafnar hafa áhyggjur af stöðu mála.
„Það er náttúrulega bara fáránlegt að skipið sé sett hingað, það skilur þetta enginn á vinnustaðnum,“ segir Helena Olsen, ritari hjá Trefjum ehf., sem segir reykinn blessunarlega liggja nokkuð beint upp en ekki yfir til þeirra.

Starfsmenn fyrirtækja í námunda við brunann í skipinu Fernöndu segja óskiljanlegt að draga alelda skipið til hafnar og láta það standa þar meðan þykkan reyk leggur yfir höfnina.

Jón Ólafur, veitingamaður á veitingastaðnum Kænan, segist sjá reykinn út um gluggan hjá sér en vindáttin sé hagstæð. Hann segir að auðvitað sé tekin áhætta þegar svona skip eru dregin alelda inn í höfnina.

Ólafur Cýrusson, deildarstjóri björgunardeildar Ísfells ehf., segir fyrirtækið staðsett nálægt skipinu.

„Við finnum lyktina vel, það skíðlogar skipið, stafna á milli og eldtungurnar teygja sig hátt upp í loftið. Okkur finnst skondið að þeir hafi ákveðið að draga skipið hingað í stað þess að setja það út á ytri höfn og unnið í því þar,“ segir Ólafur og bætir við á léttari nótum, „það er spurning hvort þeir kveiki ekki bara í bryggjukantinum í ofanálag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×