Innlent

Flestir sjálfstæðismenn vilja Júlíus Vífil

Brjánn Jónasson skrifar
Stærstur hluti stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, um 40,5 prósent, vill að Júlíus Vífill Ingvarsson leiði lista flokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Þetta sýna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Um 26,2 prósent sjálfstæðismanna vill helst sjá Halldór Halldórsson í fyrsta sætinu, og 19 prósent kysu helst Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur. Lestina rekur Hildur Sverrisdóttir, en 14,3 prósent stuðningsmanna flokksins vill hana til forystu. Alls taka 68,9 prósent stuðningsmanna flokksins afstöðu til spurningarinnar.

Þegar afstaða borgarbúa í heild er skoðuð er staðan önnur. Aðeins rúm 39 prósent taka afstöðu til einhvers fjórmenninganna, og hver þeirra fær stuðning nærri fjórðungs borgarbúa.

Þannig vilja um 29,5 prósent þeirra borgarbúa sem afstöðu tóku að Júlíus Vífill leiði listann, en 24,3 prósent vilja helst Halldór Halldórsson. Stuðningurinn við Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur mælist 23,7 prósent og 22,5 prósent nefna Hildi Sverrisdóttur.

Hafa verður fyrirvara á þessum tölum þar sem úrtakið í könnuninni er minna en í hefðbundnum könnunum Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Af þeim orsökum eru vikmörkin hærri en venjulega. Vikmörkin hjá öllum frambjóðendum eru um það bil +/-6,5 og munurinn á frambjóðendunum því innan skekkjumarka.

Hringt var í 1.809 manns þar til náðist í 1.158, þar af 439 Reykvíkinga, samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 30. og 31. október. Svarhlutfallið var því 64 prósent. Spurt var: Hvert eftirtalinna myndir þú helst vilja sjá leiða lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×