Innlent

Mikil svifryksmengun í kjölfar björgunaraðgerða

Mikinn reyk lagði yfir Hafnarfjarðarbæ við brunann í höfninni í dag og voru stjórnendur margra fyrirtækja í nágrenninu ósáttir við þá ákvörðun að skipið skyldi dregið inn í höfn í námunda við byggð. Ef verr hefði farið hefði það getað lagt nánasta umhverfi í hættu.

Hjalti Rúriksson, starfsmaður Orms og Víglundar, sagði að þeir hefðu fundið vel fyrir mengun frá svæðinu.

„Þetta var náttúrulega bara þarna á bryggjunni þar sem við erum að vinna við og það stóð hérna reykurinn yfir allt meira og minna, sérstaklega þegar þeir voru að koma með skipið í morgun. Annars stóð reykurinn svo bara upp í bæ. Okkur fannst strax mjög vitlaust að það hafi verið að draga það hérna inn. Það hefði átt að halda því hérna fyrir utan og vel hægt að starta aðgerðum þar.

Hörður Harðarson, vélsmíðameistari Trefja ehf., sagði að starfsmenn hefðu fundið vel fyrir reyk og lykt í húsnæðinu og sagði óskiljanlegt að ákveðið hefði verið að draga skipið inn í Hafnarfjarðarhöfn.

„Mér finnst þetta alveg skelfilegt og í raun og veru algjört hugsunarleysi að draga skip með hundrað tonn af svartolíu inn í miðjan bæ til að reyna að slökkva hann. Mér finnst þetta alveg fáheyrt í stað þess að glíma við eldinn hérna fyrir utan eða í Straumsvík eða Helguvík í en ekki draga skipið inn í miðja íbúahöfn. Ég get svosem alveg skilið að höfnin sé neyðarhöfn og ef skip eru að sökkva, eins og við þekkjum dæmi um að það hafi komið skip með gati á og annað. En þarna tala menn að það sé verið að tala um flak. Þannig að ég sé ekki neyðina.“

Mikil svifryksmengun mældist í Hafnarfirði eftir reykinn sem lagði frá skipinu og voru send tilmæli til leikskóla og grunnskóla í námunda við svæðið um að halda börnum inni og íbúum bæjarins bent á að hafa glugga lokaða. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði segir að Hafnarfjarðarbær hafi haft lítið um það að segja hvort að skipið hafi átt að koma til Hafnarfjarðar eða ekki.

„Við erum neyðarhöfn og sem neyðarhöfn ber okkur skylda til að taka á móti í neyðarástandi. Við erum hluti af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og það er sú aðstaða sem við erum í núna. Þannig að í mínum huga er það ekki spurning hvort við erum sátt eða ekki sátt heldur tökumst við á við þær aðstæður sem fyrir eru og treystum því að ákvörðunin að draga skipið inn hafi verið sú rétta á þeim tímapunkti sem hún var tekin og miðað við þær aðstæður sem skapast á staðnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×