Innlent

Össur galopnar inn í bakherbegi stjórnmálanna

Heimir Már Pétursson skrifar
Össur Skarphéðinsson fyrrverandi utanríkisráðherra afhjúpar átök forseta Íslands við fyrrverandi ríkisstjórn á Ríkisráðsfundum í væntanlegri bók. Hann greinir m.a. frá því hvernig minnstu munaði að Jóhanna Sigurðardóttir neyddist til að segja af sér þegar hún skipti núverandi formanni Samfylkingarinnar út úr ríkisstjórn.

Um miðjan þennan mánuð kemur út bókin „Ár drekans“ eftir Össur Skarphéðinsson þar sem hann rekur í gegnum dagbókarfærslur sínar árið 2012 í lífi síðustu ríkisstjórnar.

Ein launhelgin sem Össur opnar fyrir almenningi eru ríkisráðsfundir sem hingað til hafa verið algert trúnaðarmál, en þar hvessti stundum milli forseta og ríkisstjórnar, sérstaklega eftir Icesavemálið.

„Þarna sat ríkisstjórnin á Bessastöðum og forseti Íslands tekur á móti henni . Þetta breytist allt í einu í mjög þunga kyrrstöðubaráttu þar sem menn eru kurteisir og hóflegir. En forsetinn í reynd húðskammar ríkisstjórnina, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur nánast þrisvar sinnum á sama fundinum,“ segir Össur um ríkisráðsfund í ágúst 2012.

Þá urðu mikil átök innnan Samfylkingarinnar þegar Jóhanna Sigurðardóttir ákvað að skipta Árna Páli Árnasyni núverandi formanni Samfylkingarinnar út úr ríkisstjórn

„Ég set lesandann inn í stöðuna þegar árið byrjar og það byrjar þannig að við erum að koma af fundi þar sem pólitískt líf forsætisráðherrans hangir á bláþræði og þar með líf ríkisstjórnarinnar. Ef Jóhanna hefði þurft að segja af sér þetta kvöld, sem hún hefði orðið að gera ef tillaga hennar hefði fallið, hefði ríkisstjórnin sprungið í einum vetvangi,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi .

Horfa má á viðtalið við Össur í heild sinni í þættinum Pólitíkin á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×