Innlent

Mörg fíkniefnamál í borginni

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og fjölmörg fíkniefnamál komu upp. Einstaklingur var handtekinn í Kópavogi, grunaður um framleiðslu og dreifingu fíkniefna. Lögreglan lagði hald á plöntur og fíkniefni í sölueiningum en slepptu manninum að lokinni skýrslutöku.

Þá voru tveir menn handteknir í Austurborginni og í Breiðholti, grunaðir um sölu og dreifingu ólöglegra efna.

Níu ökumenn voru stoppaðir í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu og dreifingu. Þeir voru ýmist látnir lausir eftir skýrslutöku eða gistu fangageymslur. Þá voru fjórir ökumenn stoppaðir vegna ölvunaraksturs. Tveir þeirra sem stoppaðir voru höfðu ekki ökuréttindi.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að mikill erill hafi verið í miðborginni í nótt vegna tilkynninga um hávaða og öðrum málum tengdum ölvun.

Á Akureyri voru tveir mennn handteknir vegna aksturs undir áhrifum bæði fíkniefna og áfengis. Lögreglan þurfti að veita öðrum manninum eftirför, því þegar hann sá í hvað stefndi reyndi hann að stinga af og ók á ógnarhraða inn í íbúðarhverfi.

Tveir lögreglubílar eltu manninn um stund, en hann reyndi einnig að hlaupa í burtu eftir lögreglunni hafði tekist að stöðva bilfreið hans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×