Innlent

Landssamtök íslenskra stúdenta stofnuð í dag

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Fulltrúar stúdenta við Íslandsklukkuna á Akureyri.
Fulltrúar stúdenta við Íslandsklukkuna á Akureyri.
„Ég er aðallega glöð með stofnun samtakanna, þetta er sögulegt og ótrúlega mikilvægt fyrir stúdentahreyfinguna á Íslandi sem heild. Ég held að við getum sett miklu meiri kraft í baráttuna sem ein heild,“ segir Anna Marsibil Clausen, nýkjörinn formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta.

Ný sameiginleg hagsmunasamtök stúdenta á Íslandi voru stofnuð í dag á Akureyri þar sem saman voru komnir fulltrúar frá öllum háskólum landsins.

„Þessi samtök hafa verið svolítið eins og barnið mitt þar sem ég hef gengið með þessa hugmynd í maganum lengi, áður en hún fæddist og varð að veruleika í dag,“ segir Anna Marsibil í samtali við fréttastofu Vísis.

„Nú hafa aðilarfélögin fengið fullt forræði yfir þessu barni mínu en ég er ótrúlega glöð með að fá tækifæri til að taka áfram þátt í uppeldinu með formennskunni,“ segir Anna sem ætlar að setja kraft í hagsmunabaráttu stúdenta á landsvísu.

Aðspurð um hver helstu baráttumál hinna nýstofnuðu hagsmunasamtaka verði segir Anna: „Við munum auðvitað halda áfram að berjast fyrir bættum úthlutunarreglum LÍN, þá ætlum við að setja kraft í baráttu fyrir bættum aðstæðum íslenskra stúdenta á leigumarkaði og eins setja gæðamál íslensku háskólanna á oddinn.“

Á fundinum var einnig skipað í framkvæmdastjórn samtakanna en í henni sitja:

Aníta Einarsdóttir og Birgir Marteinsson frá Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri.

Helga Margrét Friðriksdóttir og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir frá Nemendafélagi Háskólans á Bifröst.

Ellert Arnar Marísson og Silja Yraola Eyþórsdóttir, frá Nemendafélagi Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ástrós Linda Ásmundsdóttir og Daníel Stefán Þorkelsson frá Nemendaráði Listaháskóla Íslands.

Baldur Ólafsson og Jóhann Gunnar Þorkelsson frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis.

Halldór H. Gröndal og Anita Brá Ingvadóttir frá Stúdentafélagi Háskólans í Reykjavík.

María Rut Kristinsdóttir og Helga Lind Mar frá Stúdentaráði Háskóla Íslands.

Anna Marsibil Clausen, formaður LÍS hringdi Íslandsklukkunni fyrir utan Háskólann á Akureyri 8 sinnum. Eitt slag fyrir hvert stofnfélag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×