Innlent

Gremja innan stjórnar vegna Gísla Marteins

Jakob Bjarnar skrifar
Óánægja er innan stjórnar með að Gísli Marteinn hafi verið ráðinn en Ingvi Hrafn formaður telur ekki hlutverk stjórnar að fjalla um einstakar mannaráðningar.
Óánægja er innan stjórnar með að Gísli Marteinn hafi verið ráðinn en Ingvi Hrafn formaður telur ekki hlutverk stjórnar að fjalla um einstakar mannaráðningar.
Stjórnarmenn hjá Ríkisútvarpinu eru sumir hverjir mjög ósáttir við að Gísli Marteinn Baldursson hafi verið ráðinn þar inn sem dagskrárgerðarmaður.

Á fundi útvarpsráðs RÚV ohf síðastliðinn fimmtudag lögðu Björg Eva Erlendsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna, og Pétur Gunnarsson, fulltrúi Pírata, fram bókun þar sem þau mótmæltu ráðningu Gísla Marteins Baldurssonar sem þáttastjórnanda á Ríkisútvarpinu. DV hefur fyrir þessu heimildir.

Björg Eva segir ekki við hæfi að segja einum upp vegna pólitískra tengsla en ráða svo stjórnmálamann til starfa sem enn er kjörinn fulltrúi einhvers stjórnmálaafls. Pétur telur ekki heppilegt að RÚV ofh réði til sín stjórnmálamenn til að sjá um dagskrárgerð um pólitík. Ingvi Hrafn Óskarsson er formaður stjórnar RÚV er ekki búinn að sjá frétt DV en hann segir að það gildi almennt trúnaður um ummræður á stjórnarfundum.

„En kannski vegna þessarar umræðu vil ég nefna að mér finnst ekki heppilegt að stjórn RÚV fjalli, hvorki almennt né útávið, um einstakar mannaráðningar. Það minnir á eldri tíma útvarpsráðs þegar stjórn stofnunarinnar var pólitískari en ég held að samhljómur sé um að hún sé í dag.“

Við sama tækifæri lét einn stjórnarmanna, Björn Blöndal aðstoðarmaður borgarstjóra, ummæli falla á þá leið að hann væri allt annað en sáttur við ráðningu Gísla og að Páll Magnússon útvarpsstjóri væri þannig með inngrip inn í borgarpólitíkina í Reykjavík; með því að ráða til sín kjörinn fulltrúa til starfa. Björn Blöndal vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því og vísaði til trúnaðar. En, þetta hefur sem sagt verið heitur fundur?

„Eins og ég segi, ég tjái mig ekki um einstaka fundi, en ég held að almennt talað hafi þessi ráðning fengið mjög góð viðbrögð hjá Páli. En, ítreka að mér finnst óheppilegt að stjórnin fjalli um einstakar mannaráðningar,“ segir Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar RÚV ohf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×