Innlent

Vill fresta framkvæmdum við Hverahlíð og á Hellisheiði

Samúel Karl Ólason skrifar
Sóley Tómasdóttir oddviti vinstri grænna í Reykjavík leggur í dag fram tillögu á borgarstjórnarfundi um að fresta framkvæmdum við Hverahlíð og á Hellisheiði.
Sóley Tómasdóttir oddviti vinstri grænna í Reykjavík leggur í dag fram tillögu á borgarstjórnarfundi um að fresta framkvæmdum við Hverahlíð og á Hellisheiði.
Sóley Tómasdóttir oddviti Vinstri hreyfingarinnar græns framboð í Reykjavík mun leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi í dag, um að framkvæmdum við Hverahlíð og á Hellisheiði verði frestað um eitt ár. Sá tími verði notaður til að kanna allar hliðar málsins og aðra möguleika í þaula.

„Í millitíðinni verði leitað álits sérfróðra utan borgarkerfisins og Orkuveitunnar um þau atriði sem enn orka tvímælis, en fjölda spurninga er enn ósvarað sem lúta að lögfræði, jarðfræði, forðafræði, hagfræði og ekki síst siðfræði,“ segir í tillögunni.

Sóley segist í samtali við Vísi svo sannarlega vona að tillagan verði samþykkt. „Það eru enn alvarlegir áhættuþættir sem ekki er búið að taka inn í núverandi áætlun og eftir því sem við rýnum í gögnin betur vakna upp fleiri og fleiri spurningar,“ segir Sóley.

„Það er mjög alvarlegt að fara í framkvæmdir upp á 4,3 milljarða án þess að skoða allt til hlítar. Ef við frestum framkvæmdum í eitt ár gæfi það okkur tíma til að leysa úr flestum þessum vandamálum. Við þyrftum að vísu að kaupa orku af Landsvirkjun á tímabilinu sem myndi kosta 500 milljónir. Það er vissulega mikill peningur, en það er betra en að verja 4,3 milljörðum upp á von og óvon,“ segir Sóley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×