Innlent

GK Reykjavík flýr af Laugavegi vegna framkvæmda

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Verslunin GK Reyjavík mun opna verslun í Bankastræti 11 innan skamms.
Verslunin GK Reyjavík mun opna verslun í Bankastræti 11 innan skamms. MYND/GK REYKJAVÍK
Tískufataverslunin GK Reykjavík á í deilum við eigendur Laugavegar 66 þar sem verslunin er staðsett. GK Reykjavík lokaði verslun sinni 23. október síðastliðinn vegna mikils ónæði en framkvæmdir hafa staðið yfir í byggingunni á undanförnum vikum. GK Reykjavík mun opna í Bankastræti 11 innan skamms.

Í tilkynningu frá versluninni segir að framkvæmdirnar á Laugavegi 66 hafi haft verulega slæm áhrif á daglegan rekstur verslunarinnar. Eigendur ætla að breyta Laugavegi 66 í hótel og er húsið orðið nánast fokhelt fyrir utan þann hluta þar sem verslun GK Reykjavík er staðsett. Framkvæmdir hófust án þess að samkomulag hafi verið gert við verslunina.



Öll út í iðnaðarryki


„Þann 23. október var svo brotið gat á vegg búðarinnar, vegna framkvæmdanna, með þeim afleiðingum að mikið iðnarryk komst inn í búðina og liggur lagerinn okkar nú að mestu undir skemmdum. Öll búðin er þakin iðnaðarryki og er ekki hægt að starfrækja verslun þar eins og staðan er í dag,“ segir í tilkynningu frá versluninni sem hefur falið lögfræðingum að vinna í málinu fyrir sína hönd.

„Í stað þess að stinga hausnum í sandinn þá brettum við upp ermar og vinnum hörðum höndum að því að koma rekstrinum okkar í gang aftur. Við komumst yfir húsnæði í Bankastræti 11 þar sem við munum opna litla GK með nýjum og fallegum vetrarvörum. Við smellum okkur í málningargallann, höfum hamarinn að vopni og ætlum að reyna að opna núna á laugardaginn með bros á vör.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×