Innlent

Fjölskyldu bjargað úr brennandi húsi í Berufirði

Eldurinn kom upp í sveitarfélaginu Djúpavogi.
Eldurinn kom upp í sveitarfélaginu Djúpavogi. Mynd/Andrés Skúlason
Betur fór en á horfði í bruna í Berufirði á Austurlandi í nótt. Eldur kviknaði í klæðningu austurgafls íbúðarhúss út frá kamínu. Fjölskylda var í húsinu þegar eldurinn kom upp. Tveir sjómenn sem voru að koma úr róðri frá Breiðdalsvík sáu eldinn og björguðu fimm manna fjölskyldunni úr húsinu. Einnig börðust þeir við eldinn þar til slökkviliðið kom á vettvang.

„Við fengum útkall um að húsið væri alelda og það liðu ekki nema um þrjár mínútur þar til fyrsti bíll var kominn á vettvang," segir Kári Snær Valtingojer í slökkviliðinu á Djúpavogi. „Við fórum inn til að kæla og rufum loftið. Það munaði samt litli að eldurinn næði að teygja sig í háalofti," segir Kári Snær slökkviliðsmaður. Talið er að kviknað hafi í út frá kamínu. „Þetta stóð tæpt.“

Sjómennirnir tveir áttu einnig stóran þátt í að ráða niðurlögum eldsins. Samkvæmt lögreglunni á Djúpavogi rifu þeir klæðningu af gafli hússins og púðruðu úr slökkvitæki á eldinn. Það mun hafa gert gæfumuninn.

Eigandi hússins segir í samtali við Vísi að betur hafi farið en á horfði og húsið sé minna skemmt en von var á. Húsið mun enn vera íbúðarhæft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×