Innlent

Pétur tekur við kyndlinum í Kópavogi

Jakob Bjarnar skrifar
Pétur og Guðríður Arnardóttir sem Pétur segir einhverja merkilegustu stjórnmálakonu seinni tíma.
Pétur og Guðríður Arnardóttir sem Pétur segir einhverja merkilegustu stjórnmálakonu seinni tíma. Stefán
Nú er komið á daginn að 2 efstu menn á lista Samfylkingar í Kópavogi munu ekki gefa kost ásér fyrir næstu sveitastjórnarkosningar, sem eru í maí. Pétur Ólafsson bæjarfulltrúi, 3. maður á lista, segist hvergi nærri hættur.

Guðríður Arnardóttir og Hafsteinn Karlsson ætla ekki að gefa kost á sér fyrir næstu sveitastjórnarkosningar. Guðríður hefur verið oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi síðan 2006 og formaður bæjarráðs frá 2010 til 2012. Hafsteinn er skólastjóri og hann ætlar jafnframt frá að hverfa. Þriðji maður á lista er Pétur Ólafsson bæjarfulltrúi en Samfylkingin á þrjá af ellefu bæjarfulltrúum í Kópavogi.

„Það er mikil eftirsá í Guðríði og Hafsteini. Guðríður er ein merkilegasta stjórnmálakona á Íslandi. Bæði stóðu þau vaktina meðan meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, á góðærisárunum, keyrðu bæjarfélagið nánast í þrot. Þau gagnrýndu það sem verið var að gera. Sagt er að auðvelt sé að vera vitur eftir á. En, raunin var sú að þau voru vitur meðan á öllum þessum gerningum stóð; uppkaup á Glaðheimalandi og meðan á samningum við Vatnsendabóndann stóðu yfir. Þau gagnrýndu hvert einasta skref sem leiddi til þess að bæjarfélagið var sett á gjörgæslulista eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga,“ segir Pétur.

Hann vill meina að þeirra saga sé merkileg. Hann segist hafa vitað af því að þetta stæði til, að þau væru að hætta, en ítrekar að eftirsjá sé af þeim. „Við náttúrlega vorum í meirihlutanum 2010 til 2012. Höfðum ekki verið í meirihluta frá 1990 þannig að þarna var gullið tækifæri fyrir félagshyggjumeirihluta að koma sínum málum að. Það tókst að hluta en hins vegar stóð bæjarfélagið mjög illa fjárhagslega og auðvitað þurfti að fara í blóðugan niðurskurð. Svo gerist það að meirihlutinn fellur og það fór mjög illa með okkur öll.“

Pétur ætlar að halda áfram og telur mikilvægt að sú reynsla og þekking sem hefur skapast á kjörtímabilinu haldis innan vébanda Samfylkingarinnar. „Ég hef ekkert verið að fela það: Ég vil bjóða mína krafta fram til að leiða listann í kosningunum í vor. En, það er náttúrlega í höndum uppstillingarnefndar að ákveða það.“

Samfylkingin í Kópavogi hefur ákveðið, að sögn Péturs, að skipuð verði uppstillingarnefnd sem ákveði röð frambjóðenda fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Tillögur um uppstillingu verða lagðar fyrir fund til samþykkis eða synjunar. Menn sem hafa verið nefndir sem kandídatar á lista eru Magnús Orri Schram alþingismaður en Pétur hefur ekkert heyrt um það, en segir sterka kandídata koma til greina. Sjálfur vill hann leiða listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×