Innlent

Frost og snjór í kortunum á Laugardalsvelli

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Jóhann vallarstjóri segir KSÍ fylgjast vel með veðurspánni og muni bregðast við bæði snjó og frosti.
Jóhann vallarstjóri segir KSÍ fylgjast vel með veðurspánni og muni bregðast við bæði snjó og frosti.
„Það spáir 18 m/s vindi á sunnudaginn, menn tala um að 13 m/s sé í lagi fyrir dúkinn þannig að við verðum bara að meta aðstæður eftir því hvernig rætist úr spánni á degi hverjum fram að leik,“ segir Jóhann Gunnar Kristinsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli.

Töluverðar áhyggjur hafa verið uppi vegna ástands Laugardalsvallarins fyrir landsleik Íslands og Króata sem fram fer eftir 10 daga þann 15. nóvember. KSÍ mun bregðast við misjöfnu veðri með stórum dúk sem breiddur verður yfir völlinn. Í veðurspá Veðurstofunnar spáir frosti bæði föstudag og laugardag og í langtímaspá NRK spáir bæði frosti og snjókomu í næstu viku.

Fjórir menn frá Bretlandi koma á fimmtudag til að setja upp dúkinn. „Við munum funda á fimmtudagskvöld og svo með Veðurstofunni á föstudagsmorgun til að skipuleggja hvernig er best að hafa þetta,“ segir Jóhann vallarstjóri.

Jóhann segir auðvitað erfitt að treysta á veðurspár svona langt fram í tímann, þeir muni fylgjast með og bregðast við eins og þurfa þykir. Hann segir að dúkurinn verði settur upp, en ef vindurinn verði svo hraður að dúkurinn þoli það ekki verði hann látinn falla á grasið þannig að dælingu heita loftsins undir dúkinn verði hætt, en þá muni dúkurinn samt sem áður verja grasið gagnvart frosti.

„Það er langur tími veðurspárlega séð fram að leik og miklar breytingar í veðrinu í kortunum, við metum bara aðstæður hverju sinni,“ segir Jóhann.

Jóhann segir lykilatriði að koma dúknum á völlinn áður en fer að snjóa, þar sem erfitt sé að þurfa að fjarlægja snjóinn af vellinum, betra sé ef hann fái að lenda á dúknum, sem þó ráði ekki við mjög mikinn snjó. Þeir munu slá grasið og mála völlinn á morgun fyrir leikinn.

„Aðalmálið er að jörðin verði frostlaus. Í dag hefur til að mynda verið um 7-8 stiga hiti en samt er jörðin frosin. Ef við hefðum ætlað að vinna í vellinum í dag hefði það þurft að bíða þar til síðdegis vegna frostsins,“ segir Jóhann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×