Innlent

Vildu skipið ekki aftur í Hafnarfjarðarhöfn

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Flutningaskipið Fernanda var dregið að höfn við Grundartanga seinni partinn í dag en yfirvöld í Hafnarfirði vildu ekki fá skipið aftur inn í Hafnarfjarðarhöfn. Slökkviliðið á Akranesi mun yfirfara skipið í kvöld og lögreglurannsókn hefst strax í fyrramálið.

Fernanda var fyrst dreginn til hafnar í Hafnarfirði á föstudag, en sökum þess að enn logaði í skipinu olli reykmengum bæjarbúum talsverðum óþægindum.

Í gær fékk Fréttastofa Stöðvar 2 þær upplýsingar að Fernanda yrði að öllum líkindum dregin aftur að Hafnarfjarðarhöfn í dag. Skipið hafði þá verið staðsett rétt fyrir utan höfnina í rúman sólarhring.

Í morgun var svo haldin samráðsfundur þeirra sem að málinu koma, en þá var talið best að færa Fernöndu til hafnar á Grundartanga. Var sá kostur talinn vænlegastur í stöðunni með tilliti til þess að Hafnarfjarðarbær teldi óþægilegt að hafa skipið í höfninni þar sem ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega hægt verður að hefjast handa við niðurrif og olíudælingu.

Landhelgisgæslan hefur nú lokið sínum þætti í aðgerðunum. Skipið verður hreinsað á næstu dögum og tjón þess metið áður en ákveðið verður hver fer með olíudælingu og niðurrif. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×