Innlent

Mikil aukning í íþróttaiðkun hjá stelpum

Starfsfólk Rannsókna og greiningar, þau Hrefna Pálsdóttir, Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Ingibjörg Eva Þórisdóttir og Jón Sigfússon.
Starfsfólk Rannsókna og greiningar, þau Hrefna Pálsdóttir, Margrét Lilja Guðmundsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Ingibjörg Eva Þórisdóttir og Jón Sigfússon.
Mikil aukning hefur orðið á íþróttaiðkun meðal stelpna. Þetta kemur fram í niðurstöðum úr æskulýðsrannsókninni „Ungt fólk 2013“ en rannsóknin er gerð í 5., 6. og 7. bekk í grunnskóla landsins. Jafnframt kemur fram að samverustundir með foreldrum eru miklar og aukast.

Könnun var lögð fyrir nemendur í öllum grunnskólum landsins í febrúar 2013, um líðan, menntun, menningu, tómstundir, íþróttaiðkun og framtíðarsýn. Rannsóknir og greining ehf. gerði rannsóknina fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Í niðurstöðunum kemur fram að nokkuð hátt hlutfall nemenda í 5.-7. bekk segist eiga erfitt með að sofa eða sofna, hefur litla matarlyst og hefur fundið fyrir höfuðverk og magaverk. Þetta má telja athyglisvert, einkum þar sem um er að ræða ung börn að árum.

Mikil aukning hefur orðið frá árinu 2007 á íþróttaiðkun (4x í viku eða oftar) og þá sérstaklega meðal stelpna. Nemendur sem æfa íþróttir með íþróttafélagi eru síður líklegir til að upplifa sig einmana. Um 17% nemenda sem segjast aldrei æfa íþróttir sögðust stundum eða oft finna fyrir einmanaleika á meðan hlutfallið er 7% meðal nemenda sem æfa fjórum sinnum í viku eða oftar.

Samverustundir með foreldrum aukast

Samverustundir með foreldrum eru miklar og aukast. Yfir 90% nemenda segjast stundum eða oft vera með foreldrum sínum um helgar og yfir 70% nemenda segjast stundum eða oft vera með foreldrum sínum eftir skóla. Fleiri nemendur segjast stundum eða oft vera einir heima eftir skóla (ekki með fjölskyldu) en árið 2011, eða um 47% nemenda. Um 6-9% nemenda segja að þeir eigi enga eða fáa vini. Um 12 - 17% nemenda í 5., 6. og 7. bekk segja það eiga mjög eða frekar illa við um þau að foreldrar þeirra þekki foreldra vina eða vinkvenna þeirra.

Þá segja um 8,5% (145) stráka í 5.bekk og um 5,8% stelpna (101) að þeim sé stundum eða oft strítt í frímínútum á skólalóðinni. Þá segja um 5 - 7% nemenda þeim líði frekar eða mjög illa í frímínútum sem eru svipaðar niðurstöður og fengust árið 2011.

Fleiri strákar en stelpur telja að námið sé oft eða alltaf erfitt. Þá telja líka fleiri strákar en stelpur að námið sé of létt. Um 6 - 9% nemenda í  5., 6. og 7. bekk segja að þeim líði oft eða alltaf iilla í kennslustundum, sem eru eilítið færri en árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×