Innlent

Pétur á Útvarpi Sögu fær 200 þúsund í miskabætur

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins og Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu.
Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins og Pétur Gunnlaugsson, útvarpsmaður á Útvarpi Sögu.
Björgvin Guðmundsson, ritstjóri Viðskiptablaðsins, þarf að greiða Pétri Gunnlaugssyni, útvarpsmanni á Útvarpi Sögu, 200 þúsund krónur í miskabætur vegna ummæla sem birtust í blaðinu.

Annars vegar ummælin „Þessu og fleiru reiddist Pétur mjög, henti öllu af borðinu hjá sér í beinni útsendingu og reif í Björn Val.“ sem birt voru á blaðsíðu 20 í Viðskiptablaðinu 19. tbl. 18 árgangi. Sömu ummæli sem birtust á vef Viðskiptablaðsins voru líka ómerkt og jafnframt ummælin „Lenti í handalögmálum í útvarpsviðtali.“

Er í ljós kom að ummælin voru röng var afsökunarbeiðni og leiðrétting birt í Viðskiptablaðinu og á vefsíðu þess.

Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að ummælin hefðu verið til þess að valda Pétri álitshnekki, ekki síst í því samhengi sem þau voru sett fram, og hefðu því verið ærumeiðandi fyrir hann.

Þá taldi Hæstiréttur að leiðrétting ummælanna og og afsökunarbeiðni firrtu Björgvin ekki bótaábyrgð eins og atvikum var háttað. Engin haldbær skýring hefði verið gefin á því af hverju réttmæti frásagnar þeirrar sem ummælin voru byggð á hefði ekki verið kannað áður en hún var birt. Þá yrðu ummælin ekki réttmæt með því að um hafi verið að ræða eðlilegt framlag til opinberrar umræðu um þjóðfélagsmál.

Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um ómerkingu ummælanna, en ekki var fallist á kröfu Péturs um að Björgvini yrði gert að sæta refsingu vegna þeirra.

Þá var Björgvini gert að greiða Pétri 200 þúsund í miskabætur, en Hæstiréttur lækkaði miskabætur sem héraðsdómur hafði dæmt Björgvin til að græða um 100 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×