Innlent

Tölvuþrjótar nýta sér trúgirni íslenskra barna

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuþrjótar hringdu í son Örnu og sögðu að pabbi hans hefði sagt þeim að hringja í hann svo hann gæti hjálpað þeim að laga tölvu.
Tölvuþrjótar hringdu í son Örnu og sögðu að pabbi hans hefði sagt þeim að hringja í hann svo hann gæti hjálpað þeim að laga tölvu.
„Þeir hringdu nokkrum sinnum og sögðu við son minn að pabbi hans hafi beðið þá um að hringja og gera við tölvuna. Stráknum fannst það nú eitthvað skrítið þar sem pabbi hans vinnur í tölvugeiranum,“ segir Arna Sigurðardóttir hönnuður í samtali við Vísi.

Töluþrjótar hringdu í nýfermdan son Örnu og vildu að hann veitti þeim aðgang að tölvu á heimili þeirra. Pilturinn í góðri trú, veitti þeim aðgang að tölvunni, sem hann hafði fengið í fermingargjöf. „Hann hringdi svo strax í mig, ánægður með að hafa hjálpað, en ég sagði honum að rífa tölvuna úr sambandi strax. Þeir voru þó búnir að setja lykilorð á tölvuna svo það þurfti að strauja hana og setja allt upp á nýtt.“

„Þeir reyndu að hringja aftur ítrekað en ég sagði honum að svara ekki. Ég er búin að heyra svo mörg dæmi um að svona menn séu að hringja í fólk og plata það. Mig grunaði þó ekki að þeir myndu segjast vera að hringja fyrir pabba hans. Þeir hringja úr mismunandi landsnúmerum miðað við númerabirtinn hjá mér svo það er ekki hægt að sjá hvaðan þeir hringja.“

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar á Facebook síðu sinni við því að tölvuþrjótar reyni að fá samband við börn á heimilum til að fá þau til að veita þeim aðgang að heimilistölvum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×