Innlent

Dönsuðu vinadans í tilefni dags gegn einelti

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Öll börn í Kópavogi taka þátt í eineltisdeginum sem haldinn er í dag.
Öll börn í Kópavogi taka þátt í eineltisdeginum sem haldinn er í dag. mynd/GVA
Börn og unglingar í Kópavogi ganga gegn einelti í dag en dagurinn er helgaður baráttunni gegn einelti. Börnin munu leiðast og halda á spjöldum sem hvetja til þess að allir lifi saman í sátt og samlyndi.

Tilgangurinn er að vekja athygli á því ofbeldi sem einelti er og að einelti sé aldrei réttlætanlegt.

„Það verður gengið í öllum skólahverfum bæjarins en þau eru níu talsins,“ segir Arna Schram, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar.

Hún segir alla leikskóla, grunnskóla og félagsmiðstöðvar bæjarins taka þátt. Yngstu krakkarnir sem taki þátt séu þriggja ára og þau elstu sextán ára.

Arna segir ýmsar uppákomur verða að göngunum loknum, til dæmis ætli börn og unglingar úr Kársneshverfi að syngja saman Disney-lagið „Ég er sko vinur þinn!“

Þetta er í þriðja skipti í ár sem haldinn er sérstakur dagur hér á landi gegn einelti í samfélaginu. Á vefsíðu menntamálaráðuneytisins segir að allir séu hvattir til að leggja sitt af mörkum til að einelti fái ekki þrifist í samfélaginu. Skólar, samtök og vinnustaðir eru hvattir til að beina sjónum að jákvæðum samskiptum, jákvæðum skólabrag og starfsanda. 

Sungu saman vinasöngva og dönsuðu vinadans

Sigrún Bjarnadóttir, skólastjóri í Álfhólsskóla segir að nemendur skólans hafi skipt sér í þrjá hópa og gengu hóparnir í leikskóla hverfisins og sóttu börnin. Krakkarnir gengu saman um götur hverfisins og svo hittust hóparnir þrír í íþróttahúsinu Digranesi.

"Þar sungu börnin vinasöngva. Leikskólabörnin höfðu æft söngva sem þau sungu fyrir grunnskólabörnin og grunnskólabörnin sungu fyrir leikskólakrakkana," segir hún.

"Þau sungu svo að lokum öll saman og dönsuðu vinadans sem börn í félagsmiðstöð Álfhólsskóla, Pegasus, höfðu samið og sett inn á YouTube til þess að leikskólabörnin gætu æft hann," segir Sigrún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×