Innlent

Maggi Mix og Fiskikóngurinn saman með sjónvarpsþátt

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Maggi Mix og Fiskikóngurinn Kristján Berg verða saman með þátt á ÍNN í vetur.
Maggi Mix og Fiskikóngurinn Kristján Berg verða saman með þátt á ÍNN í vetur. Mynd/Stefán
Skemmtikrafturinn og netstjarnan Maggi Mix hefur gengið til liðs við Fiskikónginn Kristján Berg. Saman verða þeir með þátt á sjónvarpsstöðinni ÍNN í vetur undir nafninu Fiskikóngurinn og fór fyrsti þáttur þeirra í loftið í gær.

„Kristján hafði samband við mig og bað mig um að vera með. Ég sló til,“ segir Maggi í samtali við Vísi. Í þættinum fer Kristján Berg yfir matreiðslu á sjávarfangi og ýmislegt fleira. Veit Maggi Mix eitthvað um fisk?

„Ég veit að þeir eru hollir og góðir,“ segir Maggi og hlær. „Við erum búnir að gera einn þátt og hann fór í loftið í gær. Ég hef fengið góð viðbrögð í dag. Ég verð með sérstakt horn í þættinum þar sem ég er hreinlega bara að sprella - segi brandara og eitthvað í þá áttina. Það ætti að trekkja að áhorf.“

Maggi Mix hefur náð nokkrum vinsældum á samfélagssíðum. Hann hefur verið virkur í að setja brandara eða endurútgáfur á vinsælum lögum á Facebook og YouTube. Maggi er ánægður með að vera kominn í sjónvarp.

„Þetta er byrjunarreitur og vonandi leiðir þetta að stærri verkefnum. Ég hef gríðarlega gaman af þessu. Það er nóg að gera hjá mér. Það er lúmskt mikið að gera í skemmtunum í heimahúsum,“ segir Maggi sem verður á skjánum á ÍNN á fimmtudagskvöldum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×