Innlent

Missti hluta dópsins í nærfötin

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Tollverðir stöðvuðu konuna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Tollverðir stöðvuðu konuna í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mynd / HAG
Ung kona var tekin með tæpt hálft kíló af kókaíni innvortis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Konan er nítján ára spænskur ríkisborgari og hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á málinu.

Konan, sem kom með flugi frá Alicante á Spáni, var stöðvuð af tollvörðum vegna gruns um að hún væri með fíkniefni meðferðis. Hún hafði misst hluta af fíkniefninu, eða rúmlega 100 grömm af kókaíni, í nærföt sín.

Auk þess var konan með stóra pakkningu innvortis og þurfti að lokum að fara með hana undir læknishendur á Landspítalann til að losa pakkann. Í honum voru rúmlega 300 grömm af kókaíni.

Íslenskur karlmaður hefur verið yfirheyrður vegna málsins, en enginn handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×