Innlent

Vilja stærri verkefni í skipasmíði

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Skipasmíði er vaxandi atvinnugrein á ný á Íslandi. Vonir standa til að innan fárra ára muni viðhald við íslenska skipaflotann að mestu leyti fara fram á Íslandi.

Stærstu skipakaup Íslendinga á síðustu árum hafa verið án aðkomu íslenskra tæknifyrirtækja. Þessu vilja tækifyrirtæki í sjávarklasanum breyta en mikill vöxtur verið hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í tæknilausnum fyrir skip hér á landi. Á fimmtudag var undirrituð viljayfirlýsing átta fyrirtækja um samstarf og er von þeirra að þróa heildstæða tæknilausn fyrir fiskiskip.

„Skipaflotinn er orðinn gamall og þarf að fara í endurnýjun og það er þess vegna sem þessi fyrirtæki taka sig saman. Þetta er hópur fyrirtækja sem eru öll að selja sínar vöru á heimsmarkað og ætla að bjóða heildstæðar lausnir,“ segir Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri íslenska sjávarklasans.

„Við sjáum það í Noregi og víðar að þar eru fyrirtækin að kaupa skipsskrokkana annars staðar að þar sem ódýrara vinnuafl í málmsmíðum er að finna. Svo hlaða fyrirtækin búnaði í skipin og það ímyndum við okkur að gera hér á Íslandi. Við getum sagt það tiltölulega bjartsýn því við erum með fyrirtæki sem eru á heimsmælikvarða á svo ótrlúlega mörgum sviðum.“

Þór er bjartsýnn á að skipasmíði muni færast í auknum mæli á nýjan leik til Íslands. „Þetta eru engir nýgræðingar í þessari grein. Munurinn á því sem er að gerast í dag og kannski fyrir tíu árum er að þessi tæknifyrirtæki eru orðin mun stærri og ráða við stærri verkefni en áður,“ segir Þór.

„Ég held að þetta sé að verða að veruleika. Það þarf auðvitað stemmningu og að menn skilji hvað er í húfi, að á Íslandi sé þessi þekking til staðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×