Innlent

„Það er bara kominn vetur“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Byrjað er að ryðja snjó á helstu umferðaræðum en allar hliðargötur eru eftir.
Byrjað er að ryðja snjó á helstu umferðaræðum en allar hliðargötur eru eftir. mynd/sigurður elísson
„Það er bara kominn vetur, þetta er ekkert flóknara en það,“ segir lögreglumaður á Akureyri þegar fréttastofa hafði samband við hann vegna mikilla snjóþyngsla, en allt er á kafi í snjó eftir nóttina.

Byrjað er að ryðja snjó á helstu umferðaræðum en allar hliðargötur eru eftir. Lögreglan sinnti einu útkalli í morgun þar sem ökumaður hafði fest sig en annars hafi bæjarbúar bjargað sér sjálfir og hjálpað hver öðrum.

Sigurður Elísson ökukennari tók mynd af snjónum fyrir utan heimili sitt í Naustahverfi í morgun, og ætlar hann ekki að láta snjóinn hafa áhrif á vinnudaginn.

„Við vorum að taka fund, ég og annar ökukennari, og spá í hvernig við ættum að gera þetta í dag. Það er byrjað að ryðja og þetta er auðvitað bara ákveðin áskorun fyrir krakkana sem eru að læra að keyra. Þau verða að kynnast þessu eins og öðru,“ segir Sigurður.

Lumar þú á góðri snjómynd frá Akureyri í morgun? Sendu okkur hana endilega á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×