Innlent

Tískuslys í stjórnarráðinu

Jakob Bjarnar skrifar
Stólan eða trefillinn er ekki alveg að gera sig að mati Sveins Andra: Á myndinni eru frá vinstri: Svavar Pálsson, Guðgeir Eyjólfsson, Þórólfur Halldórsson, Jónas Guðmundsson og Anna Birna Þráinsdóttir.
Stólan eða trefillinn er ekki alveg að gera sig að mati Sveins Andra: Á myndinni eru frá vinstri: Svavar Pálsson, Guðgeir Eyjólfsson, Þórólfur Halldórsson, Jónas Guðmundsson og Anna Birna Þráinsdóttir.
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður er þekktur fyrir að hafa næmt auga fyrir nýjustu tískustefnum og straumum. Þar sem hann var að garfa í reglugerðum rak hann augu í eina nýja slíka sem hreinlega særði smekk hans; Sveinn Andri talar um tískuslys í því sambandi og vekur athygli á þessari smekkleysu á Facebooksíðu sinni:

Um er að ræða reglugerð sem tekið hefur gildi um einkennisfatnað sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra (nr. 882/2013). Helsta nýmælið er að við einkennisfatnað bætist svonefnd stóla. Er henni lýst þannig í 8.gr.:

„Stóla skal vera úr svörtu ullarefni, um 140 sm að lengd og 14 sm breið. Innra byrði skal vera úr stömu, svörtu efni. Hvor endi skal vera með 130 gráðu útstætt horn fyrir miðju. Tveir samhliða gylltir borðar, 1,1 sm á breidd með 1,5 sm bili skulu þvera báða enda stólunnar. Neðri brún neðri borðans skal vera 5 sm frá miðhorni hennar. Efri borðarnir skulu vera tvískiptir og hver hluti um 4 sm að lengd frá ytri brún. Milli þeirra fyrir miðju skal vera ísaumað skjaldarmerki 3,5 sm á hæð og 3,5 sm á breidd úr gylltu efni. Um 33,5 sm frá miðhorni skal vera ísaumað einkennismerki sýslumanna úr gylltu efni um 3,5 sm á breidd og 4 sm á hæð. Stóla löglærðs fulltrúa sýslumanna skal vera án neðri borða."

Sveinn Andri segir þetta einhverja fyndnustu reglugerð sem hann hefur lesið og gefur þar með til kynna að honum finnist sýslumennirnir svo búnir fremur afkáralegir. Á meðfylgjandi mynd má sjá stjórnarmenn í Sýslumannafélagi Íslands með nýju teflana, og dæmi nú hver fyrir sig hvort hvort sýslumennirnir megi ekki teljast flottir með stólu sína eða kannski bara kjánalegir?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×