Innlent

Runólfur Ágústsson dæmdur til að greiða 80 milljónir

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Mynd/GVA
„Þessi viðskipti hafa ekki orðið mér til gæfu. Þau voru gerð í anda græðgi og auðsöfnunar áranna fyrir hrun og af þátttöku minni í þeim dansi er ég ekki stoltur,“ segir Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst, sem var í dag dæmdur af Hæstarétti til að greiða slitastjórn Sparisjóðabankans tæplega 80 milljónir króna.

Vefmiðillinn eyjan.is birtir pistil sem Runólfur ritar af tilefni dómsins sem féll í dag.

„Nú er dómur fallinn í þessu máli og ég hef verið dæmdur til að greiða slitastjórninni tugi milljóna ásamt vöxtum. Þeir peningar eru ekki til á mínu heimili frekar en flestum öðrum,“ segir Runólfur.

Í pistlinum segir Runólfur meðal annars frá forsögu málsins og málarekstrinum fyrir dómstólum.

„Nú stend ég á þeim tímamótum að gera þessi viðskipti upp og byrja svo frá grunni eftir að hafa tapað aleigunni. Í þeim sporum eru þúsundir Íslendinga sem langflestir, öfugt við mig, bera ekki ábyrgð á sinni fjárhagslegu stöðu, “ segir Runólfur í pistlinum.

Hann segir sig og þá sem tóku þátt í aðdraganda hrunsins þurfa að vinna sér aftur traust í okkar samfélagi. Hann hafi reynt að gera slíkt síðustu ár. Hann hafi boðið fram þekkingu sína, reynslu og krafta til að vinna að málefnum atvinnuleitenda árið 2009 og það hafi verið hans aðalviðfangsefni frá þeim tíma þar til fyrr í haust.  Hugsun hans með þeirri vinnu var samfélagsleg, að hjálpa til við endurreisn samfélagsins, eftir að hafa átt þátt í hruninu. Hann voni að með þessu hafi hann lagt lítið lóð réttum megin á þessa vogarskál hruns og endurreisnar en slíkt sé annarra að meta.

„Þrátt fyrir allt er ég feginn að endanleg niðurstaða er fengin í þessu dómsmáli sem hvílt hefur á mér og mínum eins og mara undanfarin ár. Fjárhagslegar eignir eru ekki markmið í sjálfu sér. Það er lærdómur minn af þessu öllu. Að því gefnu að maður geti framfleytt sér og sínum með mannsæmandi hætti, eru peningar bara peningar og magn þeirra umfram þarfir gerir fólk í sjálfu sér hvorki glatt eða hamingjusamt.

Ég hef tapað mínum fjármunum en er samt ríkur. Sá sem getur glaðst yfir því að sjá músarrindil í miðbæ Reykjavíkur hefur tilfinningar. Þær hef ég og slíkt skiptir meira máli en eignir og auður. Ég nýt þeirra forréttinda í mínu lífi að elska og vera elskaður. Hamingja verður ekki keypt fyrir fé og í þeim efnum er ég gæfumaður. Það er það sem raunverulega skiptir máli,“ segir Runólfur í lok pistilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×