Innlent

Íslensk kona varð fyrir leigubíl í Kaupmannahöfn og lést

Jón Júlíus Karlsson skrifar
26 ára gömul íslensk kona lét lífið eftir að hafa orðið fyrir leigubíl í Kaupmannahöfn í nótt. Lögreglan í Kaupmannahöfn rannsakar málið en ekki er vitað nákvæmlega með hvaða hætti slysið bar að. Konan var með meðvitund þegar sjúkraflutningamenn komu á slysstað en lést tveimur klukkustundum síðar á National sjúkrahúsinu.

Slysið átt sér stað skammt frá gatnamótum Hans Christian Andersens breiðgötu og Tietgensgade um klukkan 04:45 í nótt. Ökumaður leigubílsins sagði við skýrslutöku að konan hefði skyndilega birst í vegi hans á miðri götunni og tókst honum ekki að forðast árekstur. Leigubíllinn var ekki á mikilli ferð en meiðsli konunnar reyndust það alvarleg að hún lét lífið tveimur klukkustundum síðar. Konan var svartklædd og skyggni ekki gott. Ökumaðurinn er ekki grunaður um ölvunarakstur.

Lögreglan hefur haft samband við nákomna ættingja hennar á Íslandi og einnig kærasta konunnar í Danmörku. Hún var búsett í Kaupmannahöfn.

Samkvæmt upplýsingum frá Jens Christiansen hjá lögreglunni í Kaupmannahöfn verður ökumaðurinn mögulega kærður fyrir manndráp af gáuleysi. Lögreglan óskar jafnframt eftir vitnum af slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×