Innlent

Í kynlífsverkfall vegna slæms vegar

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Konurnar í Barbacaos í Kólumbíu eru í kynlífsverkfalli.
Konurnar í Barbacaos í Kólumbíu eru í kynlífsverkfalli. Mynd/AP
Konur í bænum Barbacaos í Kólumbíu eru farnar í kynlífsverkfall í annað sinn á tveimur árum. Þær hyggjast ekki stunda kynlíf á ný fyrr en að hættulegur vegur sem liggur inn í bæinn hefur verið lagaður.

Svo virðist sem að verkfall kvenna í Barbacaos sé að skila árangri því framkvæmdir við veginn eru hafnar á ný. Vegurinn er í svo slæmu ásigkomulagi að það tekur 14 klukkustundir að aka á næsta sjúkrahús.

Konurnar fóru fyrst í kynlífsverkfall árið 2011 til að mótmæla slæmu ásigkomulagi vegarins. „Hvers vegna ættum við að færa börn inn í heiminn þegar þau gætu látið lífið án læknisaðstoðar? Við ákváðum að hætta að stunda kynlíf og hætta að eignast börn þar til að stjórnvöld framfylgja loforðum sínum,“ segir Ruby Quinonez, leiðtogi verkfallskvenna.

Eftir að fyrra verkfall hafði staðið yfir í þrjá mánuði og 19 daga þá lofuðu tveir stjórnmálamenn úr bænum að vegurinn yrði lagaður. Stjórnvöld sögðu einnig að vegurinn yrði lagaður á verstu köflum. Ekkert hefur hins vegar gerst frá því að konurnar fóru í verkfall og nú hafa þær brugðið á það ráð að fara á ný í verkfall.

Stórtækar vinnuvélar eru komnar á svæðið til að taka veginn í gegn og segja stjórnmálamenn það sönnun þess framkvæmdir séu að fara af stað. Árangur kvennanna hefur vakið athygli um allan heim og fjalla fjölmargir fjölmiðlar um málið. Karlmenn í bænum vonast til að verkfallinu ljúki sem allra fyrst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×