Innlent

Skaut í slána og sló í gegn

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Bjarmi Kristinsson ásamt landsliðsmönnum Íslands.
Bjarmi Kristinsson ásamt landsliðsmönnum Íslands. Mynd/KSÍ
Bjarmi Kristinsson, ungur Valsmaður, sló heldur betur í gegn í hálfleik í landsleik Íslands og Kýpur á föstudag. Hann tók þátt í leiknum „Skot í slána“ og gerði sér lítið fyrir og skaut beint í slána frá vítapunktinum. Fyrir vikið vann hann sér inn miða fyrir tvo á áfangastað Icelandair sem stendur fyrir leiknum í samstarfi við KSÍ.

Bjarmi er níu ára gamall og þrumaði boltanum beint í slána frá vítapunktinum við mikinn fögnuð áhorfenda á Laugardalsvelli. Þetta er í annað sinn í röð sem ungur og efnilegur knattspyrnumaður hittir slána í hálfleik í landsleik á vegum KSÍ. Diljá Rut Gísladóttir, 10 ára, náði þessu afreki í leik kvennalandsliðs Íslands gegn Sviss í síðasta mánuði.

Diljá Rut skaut í slánna í leik Íslands og Sviss og vann sér inn ferð með Icelandair.MYND/KSÍ
Bjarmi hefur leikið knattspyrnu frá því að hann var fjögurra ára gamall og æfir með Val. Fótbolti er aðaláhugamálið. Hann æfir með 6. flokki hjá Val en fær stundum að vera með á æfingum hjá 5. flokki enda þykir Bjarmi efnilegur í íþróttinni.

Á fimmtudag fékk Bjarmi að vita að hann fengi tækifærið til að skjóta í slánna í hálfleik og æfði sig því vel fyrir stóru stundina. Hann hitti þó aldrei slánna á æfingum en þegar kom að stóru stundinni degi síðar var Bjarmi svellkaldur og þrumaði beint í slána.

Icelandair gerði skemmtilegt myndband um atvikið sem sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×