Innlent

376 kirkjur og bænahús kortlögð

Á kortinu er hægt að sjá myndir og upplýsingar um kirkjur Íslands.
Á kortinu er hægt að sjá myndir og upplýsingar um kirkjur Íslands. Samansafn af skjáskotum af kirkjukort.net
Á heimasíðunni kirkjukort.net er fólki gert kleyft að skoða staðsetningu, myndir og upplýsingar um 376 kirkjur og bænahús á Íslandi.

Að síðunni standa þeir Þórarinn Örn Andrésson og Andrés Ásgeir Andrésson og kviknaði hugmyndin út frá ferðalögum þeirra um Ísland þar sem víðsvegar má sjá kirkjur og bænahús. Þórarinn segir Kirkjukort líklega vera stærsta safn landsins af kirkjumyndum. „Við erum mjög ánægðir ánægðir með hvernig síðan tókst til. Það er mjög gaman að sjá að það eru nokkrir mjög virkir notendur sem hafa sett inn ljósmyndir jafnt og þétt," segir Þórarinn. Þeir notendur sem flestar myndir hafa sett á vefinn hafa sett inn 2.431 og 730 myndir.

Síðan var gerð veturinn 2009-10. „Við gerðum þetta í okkar frítíma og höfum ekki fengið neina styrki eða óskað eftir þeim við gerð eða rekstur þessarar síðu," segir Þórarinn.

Á kortinu eru eins og áður hefur komið fram 376 kirkjur og bænahús en það verður að teljast ansi mikill fjöldi. Í heildina eru 3.917 ljósmyndir á vefnum sem sendar hafa verið inn af 300 notendum. Hver sem er getur skráð sig inn og sett inn sínar myndir af kirkjum.

Þjóðverjin Christoph Höhmann notaðist við kirkjukort.net til að skipuleggja ferðalag um Ísland þar sem hann tók myndir af nýjum kirkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×