Innlent

Stoltur að fá medalíuna inn á sitt borð

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Silfurmedalían hefur verið seld.
Silfurmedalían hefur verið seld.
Silfurmedalía sem leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik vann sér sinn á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 er seld. Medalían var í umboðssölu hjá Safnaramiðstöðinni á Hverfisgötu en var í dag tekin úr sölu. Sigurður Helgi Pálmason hjá Safnaramiðstöðinni vildi ekki greina fá því hver keypti medalíuna, né fyrir hvað háa upphæð. Uppsett verð var tvær milljónir króna.

Ingimundur Ingimundarson, varnamaður íslenska landsliðsins, sagði í samtali við Vísi að hann grunaði að um auglýsingabrellu væri að ræða hjá Safnaramiðstöðinni - enginn silfurmedalía væri í raun til sölu. Sigurður Helgi sagði eðlilegt að grunsemdir um slíkt vöknuðu upp.

„Ég geri mér fulla grein fyrir að sú hugsun geti vaknað upp hjá fólki. Það er hins vegar ekki rétt og þessi medalía var til sölu hjá mér. Það var aðili sem bað mig um að koma þessu í sölu fyrir sig og ég vissi hvað ég var með í höndunum þegar þetta kom inn á mitt borð,“ segir Sigurður Helgi.

Safnaranörd frá 13 ára aldri

„Þetta er vissulega mikil og góð auglýsing fyrir mig en ég er fyrst og fremst stoltur að hafa fengið þetta í sölu hjá mér. Ég hef verið safnaranörd frá því að ég var 13 ára gamall og orgaði jafn mikið þegar ég fékk þetta inn í verslunina og þegar Ísland fékk silfrið á sínum tíma.“

Margir hafa velt því fyrir sér hvort það sé siðferðislega rétt að selja silfurmedalíuna sem vannst á Ólympíuleikunum. Sigurður Helgi segir ekkert óeðlilegt við söluna. „Ég veit ekki hvað er rangt við þetta. Það eru ekki allir á góðum stað fjárhagslega. Þetta er hluti af eign þessa einstaklings. Ég veit ekki hvers vegna hann er að selja en hann er í fullum rétti til þess.“ 

Silfurmedalían sem Logi Geirsson vann á Ólympíuleikunum er á öruggum stað í Kaplakrika í Hafnarfirði.Mynd/FH

Tengdar fréttir

Búið að selja medalíuna - Silfurdrengir neita sölu

Handknattleiksleikmennirnir Sigfús Sigurðsson, Sturla Ásgeirsson og Ingimundur Ingimundarson segjast ekki vera viðriðnir sölu á silfurmedalíu frá Ólympíuleikunum í Kína árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×