Innlent

Er Ásmundur Einar á leið úr Framsóknarflokknum?

Heimir Már Pétursson skrifar
Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi flokkssystir Ásmundar Einars Daðasonar þingmanns Framsóknarflokksins og fulltrúa í hagræðingarhóp ríkisstjórnarinar, velti því fyrir sér á þingi í dag hvort Ásmundur kunni að vera á förum úr Framsóknarflokknum.

Lilja Rafney spurði hvort þingmaðurinn gæti tekið undir nýja ályktun kjördæmisráðs Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, kjördæmi Ásmundar Einars.

„Þar sem nánast öllum áformum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð var mótmælt. Það var ályktað gegn niðurskurði í vegamálum, gegn niðurskurði í jöfnun húshitunarkostnaðar, gegn niðurskurði til nýsköpunar og skapandi greina, gegn niðurskurði á stuðningi við innanlandsflugið í dreifðum byggðum, gegn niðurskurði í framhalds- og háskólanámi á landsbyggðinni, gegn almennum skattalækkunum, gegn sameiningu heilbrigðisstofnana og gegn virkjunum á kostnað náttúrunnar,“ rifjaði Lilja Rafney upp.

Og Lilja Rafney minnti á að Ásmundur Einar hefði gagnrýnt fyrri ríkisstjórn harðlega m.a. fyrir niðurskurð, ekki stutt fjárlög hennar og gengið úr Vinstri grænum.

„Hvernig getur háttvirtur þingmaður með góðri samvisku staðið fyrir þessum mikla niðurskurði á landsbyggðinni, þvert á vilja flokksmanna hans í hans eigin kjördæmi? Eða endurtekur sagan sig og háttvirtur þingmaður styður ekki fjárlögin, eða gengur háttvirtur þingmaður úr Framsóknarflokknum,“ spurði Llja Rafney. En Ásmundur Einar kaus að svara henni ekki í umræðunni á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×