Innlent

Stytta refsivist fanga til að spara

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, telur rétt að skoða hvort hægt sé að stytta refsivist fanga og leyfa þeim þess í stað  ljúka afplánunun undir rafrænu eftirlit. Slíkt gæti falið í sér verulegan sparnað fyrir ríkið.

Um 460 einstaklingar bíða þess nú að afplána fangelsisdóm samkvæmt skriflegu svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur þingmanns Framsóknarflokks. í svari ráðherra kemur einnig fram að meðalkostnaður á hvern fanga í fangelsum ríkisins á síðasta ári nam rúmum 7 milljónum króna. Með rafrænu eftirliti er hins vegar hægt að lækka kostnað um rúmar fimm milljónir á ári.

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók málið upp á Alþingi í dag og sagði rétt að skoða þennan kost til að lækka útgjöld ríkisins. Með því a breyta lögum um reynslulausn megi koma föngum fyrr úr fangelsi og í rafrænt eftirlit.

„það eru fæstir fangar þannig að það sé nauðsynlegt að þeir séu í öryggisfangelsum,“ sagði Brynjar.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, segir rétt að skoða breytingar hvað þetta varðar en leggur áherslu á að þetta leysi ekki vanda fangelsisyfirvalda.

„Ég held að við eigum að vera í stöðugri endurskoðun hvað varðar refsilöggjöf okkar. Hins vegar er það þannig í dag að það gæti enginn af þeim einstaklingum sem nú bíður afplánunar nýtt þennan kost. Þannig að við eigum að skoða, bæði þennan kost og ekki síður samfélagsþjónstu. Hins vegar breytir það engu um þá staðreynd að við leysum ekki þennan vanda eða losum þennan vanda nema við byggjum fleiri rými og fleiri fangelsi,“ segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×