Innlent

Farið yfir málefni vaktavinnufólks

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, leggur áherslu á að nýir kjarasamningar verði tilbúnir þegar núgildandi samningar renna út.
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB, leggur áherslu á að nýir kjarasamningar verði tilbúnir þegar núgildandi samningar renna út. mynd/Stefán Karlsson
BSRB og samninganefnd ríksisins áttu sinn fyrsta fund í dag vegna komandi kjarasamningsviðræðna. Á fundinum var farið yfir drög að viðræðuráætlun samningsaðila auk þess sem BSRB fór yfir þau verkefni sem bandalaginu hafa verið falin af aðildarfélögum sínum í tengslum við gerð kjarasamninga.

Þar á meðal eru málefni vaktavinnufólks, málefni trúnaðar­manna og önnur sameiginlega mál aðildarfélaganna. Þetta kom fram í tilkynningu frá BSRB.

„Aðildarfélögin fólu BSRB að gera viðræðuáætlun sem gerir ráð fyrir að nýir kjarasamningar verði tilbúnir þegar hinir renna út. Við höfum lagt áherslu á að sú viðræðuáætlun byggi á þeirri vinnu sem aðilar vinnumarkaðarins fóru í undir handleiðslu ríkissáttasemjara og miðaði að því að stuðla að bættum vinnubrögðum við gerð kjarasamninga,“ segir Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB sem leggur áherslu á að nýir kjarasamningar verði tilbúnir þegar núgildandi samningar renna út.

„Það er okkur mikilvægt að kjarasamningur taki beint við af kjarasamningi svo samningar verði ekki lausir til lengri eða skemmri tíma. Einnig fórum við fram á að samningaviðræður við BSRB um sameiginlegu málin færu fram samhliða viðræðum við aðildarfélög okkar,“ segir Elín Björg en aðildarfélög BSRB fara sjálf með samningsumboðið utan þeirra verkefna sem eru þeim sameiginleg og hafa verið falin bandalaginu eins og fyrr hefur komið fram.

„Stjórn BSRB kemur saman til fundar á föstudaginn kemur og við væntum þess að hafa fengið viðbrögð við viðræðuáætlun okkar frá samninganefndinni fyrir þann tíma. Stjórn BSRB mun þá taka hana til efnislegrar umræðu og í kjölfarið ákveða næstu skref,“ segir Elín Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×