Innlent

Vilja klára byggingu nýs Landspítala

Tíu þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi feli ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala við Hringbraut og hefja byggingu hans strax að því loknu.

Átta þingmenn Samfylkingarinnar standa að tillögunni auk Guðmundar Steingrímssonar úr Bjartri framtíð og Brynjars Níelssonar frá Sjálfstæðisflokki.

Í tillögunni kemur fram að illa hafi gengið að fjármagna byggingu nýs spítala. Þingmennirnir leggja til að þrjár leiðir verði skoðaðar í þessu samhengi. Í fyrsta lagi að ríkið fjármagni framkvæmdina með hefðbundnum hætti. Í öðru lagi að Nýr Landspítali ohf. eða ríkissjóður sjálfur fjármagni bygginguna með lántöku. Í þriðja lagi að framkvæmdin verði fjármögnuð með sérstakri tekjuöflun t.d. með því að tiltekinn hluti andvirðis af framtíðarsölu ríkiseigna renni til byggingarinnar.

Þá kemur fram í tillögunni að nýr spítali muni stuðla að aukinni hagræðingu hjá Landspítalanum. Vísað er til þess að erlendir sérfræðingar hafi áætlað að rekstrarlegur ávinningur af endanlegri sameiningu Landspítalans geti numið um 2,6 milljörðum króna á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×