Innlent

Útilokar ekki læknaverkfall

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir íslenska lækna langþreytta á að tala fyrir daufum eyrum.
Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, segir íslenska lækna langþreytta á að tala fyrir daufum eyrum.
Læknafélag Íslands hefur hafið undirbúning að stofnun verkfallssjóðs. Formaður félagsins útilokar ekki að verkfall sé yfirvofandi.

Á nýafstöðnum aðalfundi Læknafélags Íslands var ályktun um stofnun verkfallssjóðs lögð fram og samþykkt. Slíkur sjóður hefur aldrei verið til og íslenskir læknar hafa ekki farið í verkfall hingað til.

„Þetta er ákveðin yfirlýsing um það að við ætlum okkur að sækja kjarabætur í samningunum sem losna eftir áramótin. Skilaboðin eru þau að læknar vilja fá umtalsverðar kjarabætur, það er ósköp einfalt," segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.

Í greinargerðinni kemur fram að ýmsar ógnir steðji að heilbrigðiskerfi Íslands en að sú stærsta sé að það sé ekki aðlaðandi vinnuumhverfi fyrir lækna. Eigi að takast að snúa þeirri þróun í aðra átt verður að leita til þess allra leiða að bæta aðstæður og kjör íslenskra lækna.

Fjölmargir læknar eru vonlitlir um að slíkar kjarabætur náist nema með aðgerðum. Það er skoðun aðalfundar að kjósi félagsmenn að láta sverfa til stáls þurfi Læknafélag Íslands að vera undir það búið meðverkfallssjóði.

„Það er ljóst mál að læknar hafa verkfallsrétt og miðað við hvernig ástandið og umræðan er meðal lækna myndi ég alls ekki útiloka að verkfall sé yfirvofandi," segir Þorbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×