Íslenski boltinn

Áhorfendum fjölgaði lítillega

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn KR fjölmenntu á bikarafhendinguna í Frostaskjóli á laugardag.
Stuðningsmenn KR fjölmenntu á bikarafhendinguna í Frostaskjóli á laugardag. Mynd/Daníel
1.057 áhorfendur að meðaltali mættu á leikina 132 í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar. Um er að ræða örlitla fjölgun frá því í fyrra þegar meðalaðsóknin var 1.034 áhorfendur.

KSÍ birtir áhorfendatölurnar á heimasíðu sinni. KR virðist hafa fjölmennastan hóp stuðningsmanna. 1.863 mættu á heimaleiki Íslandsmeistaranna en næst komu FH-ingar með 1.496 áhorfendur.

Helmingur liðanna í deildinni var með fleiri en 1000 áhorfendur að meðaltali á heimaleiki sína. Flestir mættu á útileiki hjá KR, 1.497 að meðaltali og næstflestir á útileiki hjá FH, 1.316.

Flestir áhorfendur voru á Þjóðhátíðarslag ÍBV og FH um Verslunarmannahelgina en 3.034 sáu leikinn. Fæstir áhorfendur voru einnig á Hásteinsvelli þegar ÍBV mætti Keflavík 22. ágúst. 383 sáu leikinn.

Flestir mættu á leiki í 1. umferð eða 8.960 áhorfendur á leikina sex. Fæstir mættu á leikina í 19. umferð eða 3.833.

Meðalaðsókn undanfarin ár:

2000 899

2001 1076

2002 996

2003 1025

2004 1026

2005 1070

2006 1089

2007 1329

2008 1106

2009 1029

2010 1205

2011 1122

2012 1034

2013 1057




Fleiri fréttir

Sjá meira


×