Innlent

Forsetinn segir þjóðina eiga höfuðvaldið

Heimir Már Pétursson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ítrekaði það við setningu Alþingis í dag að þjóðin sjálf ætti höfuðvaldið og enginn ætti með það að skera úr um mál sem kæmu þjóðinni allri við, nema með vilja sem flestra meðal þjóðarinnar. Þetta ætti m.a. við um löggjöf og viðskipti við aðrar þjóðir.

Alþingi var sett með hefðbundnum hætti í dag. Þingmenn lölluðu úr Alþingishúsinu yfir í dómkirkjuna með forsetann, biskupinn og forsætisráðherra í broddi fylkingar, hlýddu þar á boðskap hinnar Lútersku kirkju en fyrir utan stóðu mótmælendur. Svo tölti hersingin aftur yfir í þinghúsið að lokinni messu þar sem Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands setti þetta fyrsta haustþing ríkisstjórnarinnar. Forsetinn lagði í ávarpi sínu út frá grein eftir Jón Sigurðsson í fyrsta árangi Nýrra félagsrita og sagði boðskap hans um samskipti þings og þjóðar enn eiga við.

„Það er hin mesta sæmd sem nokkur maður getur hlotið að halda fullkomnu trausti samlanda sinna og styrkja til alls hins góða sem náð verður á hverri tíð. Þegar hver mótmælir öðrum með greind og góðum rökum og stillingu og hvorugir meiru en sannleikurinn sjálfur ryður tl rúms,“ sagði Ólafur Ragnar.

Forsetinn ítrekaði hvar hið mesta vald liggur og komst þar kannski næst því að snerta samskipti Íslands við Evrópusambandið.

„Þjóðin sjálf á höfuðvaldið og enginn á með að skera úr málefnum þeim sem allri þjóðinni við koma nema samkvæmt vilja flestra meðal þjóðarinnar. Kemur það einkum fram í ákvörðunum alls þjóðkostnaðar eður í skattgjaldinu og skattgjaldsmátanum og þar að auki í löggjöf og viðskiptum við aðrar þjóðir,“ hafði forsetinn eftir Jóni Sigurðssyni.

Að loknu ávarpi sínu bað forsetinn þingheim að heilla fósturjörðina og tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætiráðherra hressilega undir það og sagði: Heill forseta vorum og fósturjörð og stjórnaði síðan fjórföldu húrrahrópi þingmanna fyrir öllu saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×