Innlent

Erfitt fyrir fatlaða að leita sér hjálpar eftir kynferðisbrot

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Fatlaðir eiga erfiðara með að leita réttar síns eftir að hafa lent í kynferðisofbeldi en aðrir. Þöggun er ríkjandi í málaflokknum og er henni viðhaldið af skertu aðgengi að félagslegri og réttarfarslegri aðstoð.

Fatlað fólk er mun líklegra til að verða fyrir kynferðisofbeldi en aðrir. Aftur á móti er þetta fólk ekki jafn líklegt til að leita þeirrar hjálpar sem í boði er fyrir þolendur ofbeldis. Þetta málefni var rætt á málþingi um kynferðisofbeldi gegn fötluðum á málþingi í dag.

„Það eru ýmsar hindranir í veginum fyrir fólk sem glíma við fatlanir. Fólk sem er heyraskert þarf á túlki að halda og þar með hrópar það leydarmálið sitt. Sama gildir um fólk í hjólastólum sem þarf á flutningi að halda. Fólk með geðraskanir er í mörgum tilfellum lokað inni á stofnunum og kemst þar af leiðandi ekki. Svo er líka fólk sem ekki vill að aðstoðarfólkið sitt viti af þessu en hefur kannski engra kosta völ," segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

Á málþinginu kom fram að fyrst og fremst þurfi að tryggja þarf aðgengi fatlaðs fólks að ráðgjöf vegna kynferðisofbeldis, en því hefur verið mjög ábótavant. Fordómar gagnvart fötluðu séu óneitanlega til staðar og því sé nauðsynlegt að auka  fræðslu og stuðning við þann sem fyrir ofbeldinu verður.

„Annað atriði sem að mér finnst gríðarlega mikilvægt, og hefur komið fram í hverri rannsókninni á fætur annarri, er að þegar fatlað fólk kemur fram með reynslu sína af kynferðisofbeldi þá skortir gríðarlega að fólki sé trúað og það tekið alvarlega. Það er eitthvað sem við þurfum virkilega að takast á við. Þessi hópur, alveg eins og allir aðrir, geta lent í kynferðisofbeldi," segir Eva Þórdís Ebenesersdóttir, verkefnastjóri í fötlunarfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×